Piu og Sven hafnað

Síðan í október hefur mannanafnanefnd hafnað sex umsóknum um skráningar en samþykkt ellefu. Eiginnafninu Pia var hafnað þar sem það tekur ekki eignarfallsendingu og rithátturinn er ekki í samræmi við íslenska hefð.

Kvennafninu Kayla og karlnöfnunum Daniyal, Sven og Ezra var einnig hafnað með áþekkum rökstuðningi, en aðeins ein kona er fyrir skráð með nafnið Kayla og þótti nafnið því ekki hafa áunnið sér hefð. Þá var kvennafninu Cesil hafnað um skráningu þar sem það þótti of líkt karlnöfnunum Cecil og Sesil, en samkvæmt lögum um mannanöfn er óheimilt að samþykkja sama nafn fyrir bæði kyn. Einnig er aðeins ein kona skráð undir því nafni í þjóðskrá, svo nafnið hefur ekki áunnið sér hefð.

Karlnöfnin Patrek, Ástvald, Runi og Nikanor voru samþykkt án athugasemda, auk kvennafnanna Hrafna, Kristólína og Dórey. Kvennafnið Amy var samþykkt sem ritháttur nafnsins Amý, þrátt fyrir að samræmast íslenskum málfarsreglum ekki að öllu leyti. Þótti rithátturinn hafa áunnið sér hefð hér á landi, en í rökstuðningi nefndarinnar segir að ellefu konur beri nafnið hér á landi, þar af sú elsta fædd árið 1928.

Einnig samþykkti nefndin þrjú millinöfn, sem öll eru dregin af íslenskum orðstofnum, taka ekki eignarfallsendingu og eru ekki í notkun sem ættarnöfn. Það eru millinöfnin Vopnfjörð, Finndal og Hörðdal.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert