Iceland Express fær lóð í Vatnsmýrinni

Iceland Express fer nú að skoða innanlandsflug af fullum þunga.
Iceland Express fer nú að skoða innanlandsflug af fullum þunga.

Flugfélagið Iceland Express hefur fengið vilyrði fyrir lóð í Vatnsmýrinni og getur undirbúningsvinna vegna innanlandsflugs nú hafist af fullum þunga. Flugfélagið treystir sér til að hafa lægri fargjöld en nú eru á markaði.

Flugstoðir ohf hafa veitt vilyrði fyrir lóð sem Iceland Express hefur sóst formlega eftir frá því í fyrrasumar. Þá var komin endanleg neitun frá Flugfélagi Íslands um aðstöðu í flugstöð sinni, á þeim grundvelli að hún væri þegar sprungin. Viðræðurnar höfðu staðið yfir í rúmt ár.

Matthías Imsland, forstjóri Iceland Express, staðfesti að nú gæti frekari markaðsgreining á áfangastöðum hafist fyrir alvöru. Einnig þyrfti að athuga hvernig best væri að byggja upp starfsemina. Erfitt væri að segja fyrir um hvenær flug gæti hafist ef ákveðið verður að hefja það, þeir myndu gefa sér góðan undirbúningstíma. Þeir væru þó byrjaðir að skoða þær flugvélar sem kæmu til greina að leigja fyrir starfsemina, aðstöðu og áfangastaði. Næsta skref væri að setjast niður með Flugstoðum og fara yfir málið. Óhætt væri þó að segja að eftir að málið kæmist á skrið myndi undirbúningur ekki taka langan tíma.

Akureyri og Egilsstaðir eru efstir á lista yfir mögullega áfangastaði en fleiri koma vel til greina, svo sem Ísafjörður, Hornafjörður og Vestmannaeyjar. Fyrir utan augljósan hag þessara staða af samkeppni í áætlunarflugi er ljóst að þetta skapar líka aukin atvinnutækifæri á stöðum eins og Akureyri og Egilsstöðum.

Matthías sagði að Iceland Express treysti sér til að vera töluvert ódýrari en þeir sem fyrir eru á markaðnum. Hvort verðstríð yrði hafið væri ekki gott að segja en þess mætti geta að þegar Íslandsflug hóf flug varð mikil verðsamkeppni sem endaði með því að Íslandsflug hrökklaðist af markaðnum. „Við erum hins vegar með afar sterkt félag fjárhagslega og með gríðarlega sterka bakhjarla. Við hrökklumst ekki af markaði þótt sótt verði að okkur.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert