Rætt um að byggja nýja bráðabirgðaflugstöð á Reykjavíkurflugvelli

Reykjavíkurflugvöllur.
Reykjavíkurflugvöllur. mbl.is/Þorkell

Kristján L. Möller, samgönguráðherra, upplýsti á Alþingi í dag að hann hefði á mánudag átt fund með forstjóra Flugfélags Íslands og borgarstjóra um hugsanlega byggingu nýrrar bráðabirgðaflugstöðvar á Reykjavíkurflugvelli.

Kristján var að svara fyrirspurn frá Valgerði Sverrisdóttur, þingmanni Framsóknarflokks, sem vildi fá að vita hvernig mál stæðu með Reykjavíkurflugvöll. Voru  Kristján og Valgerður sammála um að óþolandi ástand væri á Reykjavíkurflugvelli vegna óvissu um hvort völlurinn ætti að fara eða vera.

Valgerður sagði að líklegasta niðurstaðan væri að horfa til skamms tíma og byggja bráðabirgðaflugstöð á flugvellinum í stað skúranna, sem þar þjóna nú sem flugstöð.

Kristján sagði, að fjárskortur stæði ekki í vegi fyrir byggingu nýrrar samgöngumiðstöðvar við Reykjavíkurflugvöll heldur leyfi frá Reykjavíkurborg til að hefjast handa.

Fram kom hjá Kristjáni, að Flugfélag Íslands hefði hugmyndir um að endurbyggja þá aðstöðu, sem félagið hefur á Reykjavíkurflugvelli og sagðist Kristján hafa rætt það við forstjóra félagsins hvort skynsamlegt væri að byggja hús, sem geti þjónað sem flugstöð á næstu árum til bráðabirgða. Ef flugvöllurinn yrði færður væri hægt að nota það húsnæði undir annað.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert