Ætluðu að ljúka tvöföldun við Vogaveg í fyrrasumar

Áætlanir Jarðvéla ehf. gerðu ráð fyrir að lokið yrði við að tvöfalda Reykjanesbraut við veginn að Vogum í lok ágúst í fyrra. Rekstur Jarðvéla fór hins vegar í þrot og framkvæmdir hafa legið niðri svo mánuðum skiptir. Nú er gert er ráð fyrir að tvöföldun á þessum kafla ljúki um mánaðamóti júní og júlí í sumar, um 10 mánuðum síðar en Jarðvélar höfðu áætlað.

Framkvæmdirnar við veginn að Vogum er hluti af tvöföldun Reykjanesbrautar frá Strandarheiði að Njarðvík. Eftir að Jarðvélar sögðu sig frá verkinu tók Vegagerðin yfir umsjón með merkingum á framkvæmdasvæðinu í byrjun desember sl. Í kjölfarið var merkingum breytt, steinsteypublokkir voru færðar og léttari skiltum komið fyrir.

Jónas Snæbjörnsson, svæðisstjóri Vegagerðarinnar, sagði í gær að ekki væri ætlunin að bæta við merkingum vegna slyssins aðfaranótt þriðjudags. Búið væri að bæta við merkingum, m.a. á þeim kafla sem slysið varð á og vandséð hvernig hægt væri að auka þær. Hann nefndi sem dæmi að merki að um vegurinn væri fyrir umferð í báðar áttir hefði verið sett á þriðja hvern ljósastaur á kaflanum við Vogaveg. Málið yrði þó skoðað.

Þar sem Jarðvélar sögðu sig frá verkinu varð að bjóða verkið út á nýjan leik og verða tilboð í verkið opnuð 8. apríl nk. Að sögn Jónasar er miðað við að búið verði að tvöfalda brautina að vegamótum við Grindavíkurveg um mánaðamótin júní og júlí nk. og að verkinu ljúki að mestu í október nk. Þetta væri um þriggja mánaða töf frá upphaflegum útboðsskilmálum. Á hinn bóginn hefði Vegagerðin boðið Jarðvélum svokallað flýtifé, þ.e. aukagreiðslu ef verkinu hefði miðað hraðar en samkvæmt útboði og Jarðvélar hefðu gert ráð fyrir að ljúka tvöföldun fram hjá veginum að Vogum í lok ágúst 2007.

Varðandi þá vegakafla þar sem umferð er beint fram hjá framkvæmdasvæðunum sagði Jónas að Jarðvélar hefðu mátt hafa þessi svokölluðu framhjáhlaup opin í þrjá mánuði en sá frestur væri löngu liðinn.

Meiri hætta á ruglingi á norðurleið

BEGGJA vegna vegamóta Reykjanesbrautar og Vogavegar er að mestu búið að tvöfalda Reykjanesbraut. Vegna framkvæmda við mislæg gatnamót og fleira er umferð hins vegar aðeins hleypt inn á annan veghlutann og þar er því tvístefna á 2-3 kílómetra löngum kafla, þ.e. ein akrein er fyrir hvora akstursstefnu.

Þetta getur valdið ruglingi, m.a. vegna þess að þegar ekið er eftir þessum kafla sjá ökumenn að búið er að leggja tvöfalda braut við hliðina á þeirri sem ekið er eftir. Þegar skyggni er slæmt eða umferð lítil er töluverð hætta á að ökumenn á norðurleið telji að hin brautin, sem er þeim á vinstri hönd, sé fyrir umferð í gagnstæða átt en þeir geti ekið á tveimur akreinum. Þeir sem eru á leið suður ættu að gera sér betur grein fyrir ástandinu m.a. þar sem þeir þurfa að beygja til vinstri inn á kaflann sem um ræðir.

Ruglingur sem þessi virðist hafa orsakað alvarlegt bílslys á umræddum kafla brautarinnar aðfaranótt þriðjudags en það lítur út fyrir að ökumaður, sem var á leið til höfuðborgarsvæðisins, hafi talið að báðar akreinarnar væru fyrir umferð til norðurs. Kona slasaðist illa í slysinu og í gær var henni enn haldið sofandi í öndunarvél.

Á tveimur öðrum stöðum á Reykjanesbraut er umferð færð á milli nýrra og gamalla hluta brautarinnar. Kaflinn við Vogana er hins vegar lengstur og varasamastur.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert