Andlát: Jón S. Guðmundsson

Jón Sigurður Guðmundsson, fyrrverandi menntaskólakennari, andaðist á Elliheimilinu Grund í gærmorgun, 8. apríl, á nítugasta aldursári.

Jón var fæddur 11. október 1918 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Guðmundur Þorsteinsson sjómaður og vörubílstjóri og Guðrún Jónsdóttir húsmóðir.

Jón ólst upp í Reykjavík og gekk þar menntaveginn. Hann lauk prófi frá Verzlunarskólanum 1935, varð gagnfræðingur utan skóla frá Menntaskólanum í Reykjavík (MR) 1940 og lauk stúdentsprófi frá MR, einnig utan skóla, árið eftir. Jón nam íslensk fræði við Háskóla Íslands og lauk cand. mag. prófi 1950.

Jón vann við skrifstofustörf og fleira í Reykjavík á árunum 1935-42. Ævistarf hans var við íslenskukennslu í MR en þar kenndi hann í hálfa öld. Jón byrjaði sem stundakennari í MR árið 1943 og var fastráðinn 1951. Á hálfrar aldar kennsluafmæli Jóns árið 1993 var hann sérstaklega heiðraður af þáverandi menntamálaráðherra fyrir störf sín við skólann. Þá hafði Jón kennt manna lengst við MR. Einnig hlaut Jón Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2003 fyrir framlag sitt til íslenskrar tungu.

Jón kvæntist Guðrúnu Mundu Gísladóttur (f. 11.12. 1923, d. 24.10. 2007) þann 11. júní 1954. Þau eignuðust fjögur börn, Ólaf Gísla lækni, Guðrúnu Vigdísi lækni, Auðun Örn iðnaðarmann og Guðríði Kristínu verslunarmann. Þau lifa föður sinn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert