Ný höfn næstbesti kosturinn

Vestmannaeyjahöfn.
Vestmannaeyjahöfn. mbl.is/GSH

„Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur á öllum tímum verið alveg samstiga um að 30 mínútna sigling milli lands og Eyja sé næstbesti kosturinn á eftir jarðgöngum,“ segir Elliði Vignisson bæjarstjóri í Vestmannaeyjum um afstöðu bæjarstjórnar til ferjusiglingar milli lands og Eyja og byggingar hafnar á Landeyjarsandi.

„Það var einróma niðurstaða okkar að jarðgöng væru langbesti kosturinn, en eftir að þau voru slegin út af borðinu, illu heilli, þá vildum við frekar horfa til þess að sigla í 30 mínútur frekar en 2 tíma og 45 mínútur.“

Elliði sagði að Vestmannaeyingar væru orðnir mjög langþreyttir á stöðu samgöngumála. Hann sagðist að nokkru leyti líta á undirskriftasöfnun gegn Landeyjahöfn sem mótmæli við hvernig haldið hefur verið á samgöngumálum Eyjamanna. Þarna fyndi fólk farveg fyrir óánægjuna. Jafnframt mætti líta á þetta sem stuðningyfirlýsingu við jarðgöng.

Rangfærslur hjá þeim sem mótmæla höfninni

Elliði sagði að sér þætti miður að sjá þær rangfærslur sem kæmu fram hjá þeim sem stæðu fyrir söfnuninni og þær drægju að nokkuð úr trúverðugleika hennar. „Því er haldið fram að það taki 40 mínútur að sigla milli lands og Eyja, en það tekur 30 mínútur. Því er haldið fram að það verði ófært stóran hluta úr árinu, en niðurstaða Siglingastofnunar er að frátafir í Landeyjarhöfn verði sambærilegar og í Þorlákshöfn. Svo er því haldið fram að Suðurlandsvegur að Selfossi sé með hættulegustu vegum á Íslandi, en það er fjarri. Þetta er beinn og breiður vegur en fólk sleppur ekki við Hellisheiði og Þrengslin þó það fari um Þorlákshöfn.“

Hann sagði að í söfnunina væri blandað ósk um stórskipahöfn í Vestmannaeyjum, sem væri óháð þessu máli. Hann sagðist sjálfur eindregið getað tekið undir þá kröfu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert