Erlendum afbrotamönnum fjölgar

Af þeim afbrotamönnum sem lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði afskipti af á árunum 2005 til 2007 hefur hlutfall útlendra afbrotamanna aukist um 240% á meðan að aukning útlendra íbúa á höfuðborgarsvæðinu hefur einungis aukist um 18%.

Rætt var við Rannveigu Þórisdóttur félagsfræðing lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um þessi mál í 24 stundum í dag en hún mun fara nánar yfir þessar niðurstöður í fyrirlestri sínum á ráðstefnu sem verður í Salnum í Kópavogi eftir hádegi í dag.

Í viðtali við Fréttavef Morgunblaðsins sagði Rannveig að hafa þyrfti í huga að í þessari könnun væri einungis verið að skoða höfuðborgarsvæðið. „Það er gífurlega mikill fjöldi einstaklinga sem koma inn á þetta svæði á hverjum degi til að sækja atvinnu og skemmtanir þó að þeir búi annarsstaðar og það hefur að sjálfsögðu mjög mikil áhrif á þessar tölur," sagði Rannveig.

 Hún vildi einnig benda á að aukin umræða og fordómar í þjóðfélaginu geri það að verkum að betur er fylgst með útlendingum sem aftur geti leitt til þess að líkurnar á að þeir komist upp með afbrot og tók hún sem dæmi þjófnað úr verslunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert