Borgarstjóri gagnrýnir vinningstillöguna

Verðlaunahafarnir Stuart Dickson og Graeme Massie frá Skotlandi. Í forgrunni …
Verðlaunahafarnir Stuart Dickson og Graeme Massie frá Skotlandi. Í forgrunni er spánný Reykjavíkurtjörn í Vatnsmýrinni miðri. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ólafur F. Magnússon borgarstjóri fór í dag hörðum orðum um vinningstillögu um skipulag Vatnsmýrarinnar, sem fulltrúar nær allra flokka hafa hælt að undanförnu. Hann sagði að ef tillaga hætti ekki að trufla skipulagsvinnu í borginni, gæti niðurstaðan orðið skipulagsklúður sem hefði alvarlegar afleiðingar með uppbyggingu Vatnsmýrarinnar.

Vinningstillaga um skipulag Vatnsmýrarinnar var kynnt almenningi fyrr á árinu, en þar er lagt til að Hringbraut verði sett í stokk, Hljómskálagarðurinn stækkaður og lágreist borgarbyggði rísi í Vatnsmýrinni.

Borgarstjóri ræddi um tillöguna á Samráðsfundi við Fríkirkjuveg í dag og gagnrýndi hana. „Raunar er það sérstakt áhyggjuefni að þessi tillaga sem vann hugmyndasamkeppni ber þess að mínu mati vott að hún er ekki unnin af fólki sem ber nægilegt skynbragð á taktinn og þarfirnar í íslensku samfélagi. Það jaðrar við að ef þessi tillaga fer ekki að hætta að trufla skipulagsvinnu í borginni verði hér skipulagsklúður sem hefði alvarlegar afleiðingar með þróun og uppbyggingu í vatnsmýri, hvort sem við erum fylgjandi flugvelli eða ekki," sagði hann.

Hingað til hafa borgarfulltrúar talað á jákvæðum nótum um vinningstillöguna. 

Á fundinum sagði borgarstjóri að hann hafi talsvert um málið að segja. „Það er ljóst að borgarstjórinn hefur meira um það að segja hvernig staðið verður að uppbyggingu í jaðarsvæði flugvallar en höfundar að tillögu sem hefur margt gott til síns máls en var ekki í takti við samgöngulegar og skipulagsforsendur á svæðinu," sagði hann skv. RÚV.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert