Boða tiltekt í dómsmálaráðuneytinu

Sýslumanni var ekki stætt á að synja nektarumsókn Goldfingers
Sýslumanni var ekki stætt á að synja nektarumsókn Goldfingers mbl.is/Ómar

„Í hádeginu í dag munu nokkrar konur taka að sér að hreinsa út skítinn úr dómsmálaráðuneytinu. Full þörf er að lofta rækilega út og þrífa út gamaldags viðhorf sem kemur í veg fyrir að ráðuneytið sinni skyldum sínum og berjist gegn mansali." Þetta kemur fram í  fréttatilkynningu sem Drífa Snædal og Sóley Tómasdóttir skrifa undir.

Fram hefur komið í fréttum að dómsmálaráðuneytið telur ósannað að fullyrðingar lögreglustjóra LRH þess efnis, að nektardansmeyjar séu oftast þolendur misneytingar, mansals og glæpa, eigi við um starfsemi Goldfinger.

Hefur ráðuneytið því fellt úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Kópavogi um að synja Baltik ehf. um heimild í rekstrarleyfi til þess að fram fari nektardans í atvinnuskyni á Goldfinger. Lögreglustjóri LRH var umsagnaraðili vegna leyfisumsóknar Goldfingers og telur dómsmálaráðuneytið að hún sé háð verulegum annmörkum og leiði það til ógildingar á ákvörðun sýslumanns.

„Kornið sem fyllti mælinn var úrskurður dómsmálaráðuneytisins í fyrradag þar sem Lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins var gert að endurskoða umsögn sína um nektardans á Goldfinger.

Lögreglustjórinn hafði áður sent neikvæða umsögn sem hefði skv. núgildandi reglum átt að verða til þess að leyfi til nektardans yrði ekki veitt. Staðurinn hefur þó starfað skv. bráðabirgðaleyfi á meðan dómsmálaráðuneytið vann úr áfrýjun Brynjars Níelssonar fyrir hönd staðarins.
 
Síðustu ár hafa sérfræðingar keppst við að benda á tengsl milli vændis, nektardans, kláms og mansals. Kvennaathvarfið, Stígamót, Alþjóðahúsið, lögreglan og fleiri hafa staðfest að mansal þrífst hér á landi og rannsóknir hafa sýnt fram á að vændi þrífst á nektardansstöðum – það eru ógreinanleg mörk á milli vændis og mansals. Þrátt fyrir þetta er umsögn lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins talin of huglæg samkvæmt dómsmálaráðuneytinu og hagsmunir Ásgeirs Davíðssonar teknir fram fyrir baráttuna gegn vændi og mansali, enn einu sinni.
 
Ísland hefur reynt að halda andlitinu út á við með því að undirrita alþjóðasamninga gegn mansali, þar á meðal samning Sameinuðu þjóðanna kenndan við Palermo og samning Evrópuráðsins um aðgerðir gegn mansali. Þegar heim er komið skortir svo pólitískan vilja til að fara eftir samningunum. Frjáls félagasamtök hafa í mörg ár knúið á um nauðsynlegar breytingar á lögum svo við getum fullgilt samningana en allt kemur fyrir ekki. Enn á ný er verið að gera breytingar á hegningarlögunum án þess að gengið sé alla leið og þeim úrræðum sem vitað er að bíta á mansali sé beitt," að því er segir í tilkynningunni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert