Réttindi fatlaðra flugfarþega sett í reglugerð

Flugvél bíður afgreiðslu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Flugvél bíður afgreiðslu við Flugstöð Leifs Eiríkssonar mynd/kefairport.is

Samgönguráðherra, Kristján Möller, hefur sett reglugerð um réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra farþega í flugi. Með henni er innleidd reglugerð Evrópuþingsins og Evrópuráðsins sem snýst um réttindi fatlaðra og hreyfihamlaðra farþega sem fara um flugvelli og í flug flugrekenda með útgefið flugrekstrarleyfi innan evrópska efnahagssvæðisins. Reglugerðin tekur gildi 26. júlí nk.

Markmið reglugerðarinnar er að tryggja vernd og aðstoð við fatlaða og hreyfihamlaða einstaklinga sem ferðast í farþegaflugi innan evrópska efnahags­svæðisins. Reglugerðinni er ætlað að sporna gegn mismunun gagnvart umræddum einstaklingum og tryggja að þeir fái aðstoð bæði á ferð sinni um flugvelli og um borð í flugvélum.

Rekstraraðili flugvallar ber ábyrgð á því að tryggja að fötluðum og hreyfihömluðum einstaklingum sé veitt aðstoð á flugvelli. Farþega ber við farskráningu að gera grein fyrir þörf sinni á aðstoð eða í síðasta lagi 48 klukkustundum fyrir brottför. Flugrekanda og/eða ferðaskrifstofu ber að koma beiðni farþega áfram til rekstraraðila flugvallar sem ábyrgð ber á því að veita aðstoðina.

Nánar um reglugerðina 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert