Mótmæli í Helguvík friðsamleg

Mótmælendur Saving Iceland læstu sig við vinnuvélar í Helguvík í …
Mótmælendur Saving Iceland læstu sig við vinnuvélar í Helguvík í morgun. vf.is/Hilmar Bragi

Um tólf lögreglumenn eru staddir í Helguvík til þess að ræða við mótmælendur Saving Iceland samtakanna, en um 40 einstaklingar frá 10 löndum stöðvuðu vinnu við fyrirhugað álver í morgun og læsti hluti hópsins sig við vinnuvélar og aðrir klifruðu upp í krana.

Að sögn Snorra Páls Jónssonar Úlfhildarsonar, meðlims Saving Iceland, hafa mótmælin gengið rólega fyrir sig, og segir hann lögregluna hafa rætt við mótmælendur og tekið niður nöfn og skoðað skilríki þeirra.  Verktakar sem komu til vinnu í morgun hafa yfirgefið svæðið.
 
Lögreglan á Suðurnesjum segir hlutina ganga fyrir sig með friðsamlegum hætti í Helguvík, og segir að lögreglumenn vilja ræða fyrst við fólkið til þess að athuga hvort hægt sé að fá það til þess að yfirgæfa svæðið í rólegheitum.  Að öðrum kosti íhugi lögregla næstu skref. 

Saving Iceland setti upp búðir á Hellisheiði um síðustu helgi. Samtökin segja aðgerðunum í Helguvík vera ætlað að vekja athygli á eyðileggingu jarðhitasvæða á suð-vestur horni landsins og mannréttinda- og umhverfisbrotum Century í Afríku og á Jamaíka.  Segja samtökin að starfsemi fyrirhugaðs álvers Norðuráls í Helguvík krefjist frekari eyðileggingar á einstökum jarðhitasvæðum á Hellisheiði og Reykjanesi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert