Vegagerðin hagar sér ekki eins og ríki í ríkinu

Vegagerðin hagar sér ekki eins og ríki í ríkinu segir í tilkynningu sem stofnunin hefur sent frá sér vegna ummæla Bergs Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Landverndar, í fjölmiðlum í dag. Segir Vegagerðin að því fari fjarri að hún ráðist í framkvæmdir „sama hvað tautar og raular” líkt og Bergur haldi fram.

Í tilkynningunni segir síðan:

„Ákvarðanir um vegalagningu, til dæmis varðandi Dettifossveg, Lyngdalsheiðarveg og Vestfjarðaveg um Teigsskóg, eru ekki teknar að óathuguðu máli eins og stundum mætti ætla af umræðunni. Í öllum þessum tilvikum hefur farið fram ítarlegt mat og skoðun á mögulegum veglínum. Vegagerðin leggur fram möguleikana og mælir gjarnan með einum umfram annan. Mat á umhverfisáhrifum fer fram þar sem farið er yfir þá þætti er snúa að umhverfinu og náttúrunni. Skipulagsyfirvöld, þ.e. sveitarstjórnir, taka síðan ákvörðun um skipulag og þar með talda veglínuna og gefa út framkvæmdaleyfi. Allt þetta ferli tekur gjarnan nokkur ár og síðan bætast við samningar við landeigendur.

Vegagerðin tekur þannig ekki ákvörðunina um hvaða leið verður endanlega fyrir valinu þótt Vegagerðin færi rök fyrir því afhverju hún telji einn kost öðrum betri. Má til dæmis varðandi Dettifossveg nefna að árið 2001 var stofnaður samráðshópur sem í áttu sæti fulltrúar sveitarfélaga, Náttúruverndar ríkisins, Ferðamálaráðs og Samtaka ferðaþjónustunnar auk Vegagerðarinnar sem komst að þeirri sameiginlegu niðurstöðu síðla árs 2002 að legga veginn vestan Jökulsár.

Vegagerðin verður í mati sínu þess utan að taka tillit til allra þátta ekki einungis eins þáttar. Enda er markmið Vegagerðarinnar:
„Að þróa og sjá um vegakerfið á sem hagkvæmastan hátt með þarfir samfélagsins, öryggi vegfarenda og umhverfissjónarmið að leiðarljósi.”
Með þessu er átt við að samgöngur séu tryggar allt árið með eins litlum tilkostnaði og eins miklum þægindum og hægt er fyrir vegfarendur. Sérstök áhersla er lögð á samgöngur innan þjónustusvæða og að leiðarvísun sé eins skilmerkileg og frekast er kostur. Við gerð vega og viðhald þeirra er lögð sérstök áhersla á að slys verði sem fæst á vegfarendum ekki síst hinum óvarða eða gangandi vegfaranda. Reynt er að taka sem mest tillit til óska vegfarenda og að sambúð vegar og umferðar við umhverfi og íbúa sé sem best. Sérstaklega er reynt að hafa mengun eins litla og hægt er og sýna náttúru og minjum tillitsemi."


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert