Íslendingar telja mannréttindi verð fórna

Íslendingar telja mannréttindi afar mikilvæg en 69% í könnun Capacent Gallup töldu mannréttindi verð mikilla fórna og áhættu. Aðeins rúm 4% töldu mannréttindi ekki verð fórna og áhættu.

Í nýjum Þjóðarpúlsi Gallup var kannað hvaða atriði fólk teldi það mikilvæg að þau væru þess verð að taka áhættu og færa fórnir fyrir. Auk mannréttinda voru heimsfriður, frelsi einstaklingsins og baráttan við fátækt þau málefni sem Íslendingar töldu mikilvægust.

Capacent Gallup segir tvö atriði skera sig úr sem þau atriði sem séu minnst verð fórna en það eru eigin trúarbrögð, sem liðlega 58% sögðu ekki verð fórna og áhættu, og sameining Evrópu, sem ríflega 57% segja ekki verða fórna og áhættu.

Þegar niðurstöðurnar voru greindar eftir kyni kom í ljós að konur eru líklegri en karlar til að meta málefni verð þess að færa miklar fórnir og taka áhættu fyrir. Munurinn er mestur þegar kemur að jafnrétti kynjanna en 57% kvenna telja það þess vert að færa miklar fórnir og taka áhættu fyrir en 39% karla eru sömu skoðunar.

Töluvert hærra hlutfall kvenna en karla telur að baráttan gegn kynþáttafordómum sé fórna og áhættu verð en 14% karla telur að baráttan gegn kynþáttafordómum sé ekki fórna eða áhættu verð samanborið við 5% kvenna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert