Formennirnir voru kjölfestan

Geir H. Haarde og Guðni Ágústsson, formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks
Geir H. Haarde og Guðni Ágústsson, formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks Jim Smart

 Það skipti miklu í brúarsmíði milli Framsóknar og Sjálfstæðisflokks í borgarstjórn að formenn flokkanna höfðu hist, borið saman bækur sínar og töldu að samstarf „horfði mjög til heilla“. Geir H. Haarde og Guðni Ágústsson mynduðu „ákveðna kjölfestu“ þegar óformlegar þreifingar voru að hefjast á milli flokkanna og skapaði það grundvöllinn að því að flokkarnir náðu saman.

Ljóst er að óánægjan með samstarfið við F-listann hafði kraumað lengi í Sjálfstæðisflokknum. Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins töluðu opinskátt sín á milli um þetta vandamál á fundum í Valhöll á mánudag og að morgni þriðjudags. Hanna Birna og Ólafur hittust síðan á löngum fundi um eftirmiðdaginn á miðvikudag frá 12 til 19, eins og fram hefur komið, og kom Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson inn á fundinn klukkan 16.

Ýmislegt bar á góma á fundum með Ólafi, meðal annars hvort hann gæti hugsað sér að breikka meirihlutann með Framsóknarflokknum og hvort hann væri tilbúinn að víkja fyrir Hönnu Birnu sem borgarstjóri. Ólafur lokaði ekki fyrir það, en var ekki tilbúinn að ganga eins langt og sjálfstæðismenn óskuðu.

Það hafði hins vegar komið á daginn að framsóknarmenn voru ekki til í samstarf sem „þriðja hjól undir vagni“. Og undiraldan var orðin þung í Sjálfstæðisflokknum. Þar voru menn óánægðir með ósamstöðuna og vandræðaganginn í meirihlutanum, sem kristallaðist í dræmum niðurstöðum skoðanakannana og vildu fá festu í borgarstjórn. Þegar hjólin voru farin að snúast urðu þau ekki stöðvuð. Skilaboðin voru skýr úr baklandinu og samstarf við Framsókn í farvatninu. „Þetta var eina leiðin sem var fær.“

Borgarfulltrúar flokksins funduðu heima hjá Hönnu Birnu til klukkan 2 í fyrrinótt og var samstaða meðal þeirra um framhaldið. Kjartan Magnússon tók dræmast í að slíta samstarfinu við F-listann, enda hafði hann verið í nánu sambandi við Ólaf og átt ríkan þátt í myndun meirihlutans með F-listanum.

Hanna Birna og Ólafur F. Magnússon hittust svo fyrir borgarráðsfund í gærmorgun, eins og venjulega. En eftir því var tekið að hún mætti ekki á borgarráðsfundinn sem hófst kl. 9.30 og fundaði þess í stað áfram með Ólafi. Þar voru fyrir hönd minnihlutans Óskar Bergsson, Dagur B. Eggertsson og Þorleifur Gunnlaugsson frá Vinstri grænum, en Svandís Svavarsdóttir er í fríi í Toscana á Ítalíu. Það ríkti ágætisandi á fundinum, sem var stuttur og snarpur. Óvissan í borginni var ekkert rædd og „ekki einu sinni gantast með hana“. Óskar lét raunar færa til bókar að hann gerði athugasemd við hvernig að vali á verktaka væri staðið eftir útboð vegna Sæmundarskóla.

Eftir að fundinum lauk settust borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins yfir málin í sófasett í fundarherbergi sem liggur að borgarráðsherberginu. Þeir lokuðu að sér og ræddu meðal annars um hvað þeir ættu að segja fjölmiðlum. Fjölmiðlar héldu hins vegar að borgarfulltrúarnir hefðu farið niður brunastigann til þess að sneiða hjá sér, olli það hneykslan og fordæmingu og fór reiðialda um samfélagið. Borgarfulltrúarnar undruðust hins vegar að engir fjölmiðlar væru á staðnum er þeir komu út úr fundarherberginu. Misskilningurinn var leiðréttur síðar um daginn.

Lagt var upp með það af hálfu minnihlutans í gær að Ólafur F. Magnússon viki fyrir Margréti Sverrisdóttur. Og Tjarnarkvartettinn gengi í endurnýjun lífdaga. En sögum ber ekki saman um hvort Ólafur hafi boðist til þess að hætta eða ekki. Úr herbúðum Vinstri grænna mátti heyra að hann hefði boðist til þess, en því var neitað af samstarfsmönnum Ólafs.

Borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fóru til fundar við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur eftir borgarráðsfundinn, en hún hafði komið sér fyrir í skrifstofuhúsnæði í Kópavogi til þess að fá starfsfrið. Og hafði gert drög að samkomulagi við Óskar um að hefja viðræður. Eftir það fóru samskiptin að mestu fram þaðan, þar til formlegar viðræður hófust í Ráðhúsinu. Áður hringdi Hanna Birna í Ólaf F. Magnússon til þess að láta hann vita af því.

Stefnt var að því að hefja viðræður fyrir kvöldfréttir, en ekki náðist að ganga frá lausum endum í Framsóknarflokknum. Marsibil Sæmundardóttir, varaborgarfulltrúi, var ekki sannfærð og vildu menn tryggja að hún væri samþykk framhaldinu. Ekki hafðist uppi á henni og olli það nokkrum áhyggjum þar til kom á daginn að hún var í heilsurækt. Og menn vörpuðu öndinni léttar. Það kom svo fram í máli Óskars Bergssonar í gær að hann myndi funda með Marsibil Sæmundardóttur varaborgarfulltrúa fyrir hádegi í dag, en hún er eini framsóknarmaðurinn utan hans sem getur gegnt formennsku í nefndum.

„Þetta hafa verið viðburðaríkir dagar,“ sagði hann þegar nýr meirihluti var kynntur í gærkvöldi. Það eru orð að sönnu.

Nánar er fjallað um myndun nýs meirihluta í borginni og fyrri meirihluta í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert