Ólafur Ragnar frestar för til Bangladess

Forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff fylgdust með íslenska …
Forsetahjónin Ólafur Ragnar Grímsson og Dorrit Moussaieff fylgdust með íslenska landsliðinu í handbolta á Ólympíuleikunum. mbl.is/Brynjar Gauti

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hefur ákveðið að fresta för til Bangladess um þrjá daga en til stóð að hann kæmi til Dhaka, höfuðborgar Bangladess í dag. Ólafur Ragnar tilkynnti í kveðjuhófi sem haldið var í sendiráði Íslands í Peking til heiðurs Ólympíuförunum í gær að ákveðið hefði verið að sæma landsliðið í handbolta fálkaorðunni í tilefni af hinum einstæða sigri þeirra á Ólympíuleikunum.

Ráðgjafi stjórnvalda í Bangladess, Iftekhar Ahmed Chowdhury, sagði í samtali við bdnews24.com í gær að heimsókn forseta Íslands hafi verið frestað. Forsetinn muni koma til Bangladess þann 29. ágúst í stað 26. ágúst.  Ólafur Ragnar mun taka þátt í loftslagsráðstefnu í Dhaka og til stendur að hann verði í Bangladess til 1. september.

Aðrir fréttamiðlar í Bangladess hafa eftir ónafngreindum embættismönnum að heimsókn Ólafs Ragnars hafi verið aflýst af ótilgreindum ástæðum.

Von er á íslensku ólympíuförunum til Íslands á morgun. Ekið verður með þá frá Hlemmi niður Laugaveg og að Arnarhóli .

Ferð ólympíufaranna hefst á Hlemmi kl. 18 á opnum vagni. Er förinni heitið niður Laugaveg og lýkur á Arnarhóli þar sem þjóðin hyllir þá kl. 18:30.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert