Segja orð borgarstjóra röng

„Fullyrðing Hönnu Birnu Kristjánsdóttur borgarstjóra um bindandi samning [við samgönguyfirvöld] um flug í Vatnsmýri til 2024 er röng,“ segir forsvarsmenn Samtaka um betri byggð. Þeir boðuðu til fréttamannafundar í gær um málefni Vatnsmýrar og Reykjavíkurflugvallar.

„Væntanlega er hún að vísa til þess að í gildandi aðalskipulagi til 2024 er gert ráð fyrir að hluti flugvallarins, ein flugbraut, geti verið þar áfram til þess tíma. Þarna er um hagsmuni allra höfuðborgarbúa að ræða og mikilvægt að rétt sé farið með þessi mál,“ segir Örn Sigurðsson, formaður samtakanna. Hann segir að ekkert ákvæði skipulagsáætlunar geti verið ígildi bindandi samnings.

„Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson lýsti því yfir fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins árið 2006 að borgarstjórnarflokkurinn hefði þá stefnu að flugvöllurinn færi úr Vatnsmýri ekki síðar en 2016,“ bendir Gunnar H. Gunnarsson á. Þeir halda því einnig fram að borgarstjóri virðist hafa gleymt þeirri lýðræðislegu ákvörðun kjósenda í kosningunum um flugvöllinn á sínum tíma, að flugið skuli víkja úr Vatnsmýri eigi síðar en 2016.

„Það er athyglisvert að Hanna Birna skuli núna vera farin að tala á þessum nótum. Segja má að brottför flugvallarins hafi fengið 90% atkvæða,“ segir Örn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert