Pláss fyrir á þriðja tug þúsunda kistna

Stefnt er að því að taka nýjan kirkjugarð í hlíðum Úlfarsfells í notkun á árunum 2018 til 2020. Pláss verður í garðinum fyrir vel á þriðja tug þúsunda kistna en einnig er gert ráð fyrir lundi fyrir duftker, óvígðum grafreitum og grafreitum fyrir fólk í öðrum trúfélögum en kristnum.

Þórsteinn Ragnarsson forstjóri Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæmis segir að væntanlegum kirkjugarði verði þjónað frá Gufuneskirkjugarði. „Þar verða tæki og mannafli fyrir þennan garð. Þessi garður verður um 22 hektarar að stærð og fyrstu hugmyndir að garðinum eru að mínu mati mjög áhugaverðar.“

Þórsteinn segir að kirkjugarðar Reykjavíkurprófastsdæmis séu í góðri aðstöðu með pláss eins og staðan er í dag. „Okkur liggur í raun ekki lífið á með þessa framkvæmd. Ef að við færum af stað strax á morgun með framkvæmdir yrði ekki hægt að taka garðinn í notkun fyrr en eftir í fyrsta lagi átta ár. Það er bara sá tími sem þarf í jarðvegsvinnu og undirbúning. En eins og ég segi erum við ekki í neinni nauð og ég reikna með að Úlfarsfellsgarður verði tekinn í notkun eftir þetta tíu til tólf ár.“

Hugmynd að hönnun garðsins er nokkuð nýstárleg. Þar er tekið mið af þróun miðaldabæja, með kjarna sem garðurinn vindur sig utan um. Með þeim hætti er jafnframt hægt að taka garðinn í notkun í áföngum vandræðalaust. Þórsteinn segir að þar á bæ lítist mönnum nokkuð vel á tillöguna þótt sníða þurfi af henni einhverja agnúa. „Þetta var sú tillaga sem var einföldust og ódýrust en jafnframt er hún frumleg líka.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert