Staða krónunnar tímabundin

Geir H. Haarde, forsætisráðherra segir að veiking krónunnar sé tímabundin og gengið sé töluvert fyrir neðan það sem eðlilegt geti talist. „Hvenær hlutirnir rétta sig af er engin leið að segja til um. Það fer mjög mikið eftir því hversu fljótt alþjóðlegir markaðir komast í jafnvægi aftur," sagði Geir í samtali við Morgunblaðið í dag.

Geir sagði að þær hamfarir sem hefðu átt sér stað á erlendum fjármálamörkuðum í vikunni myndu hafa áhrif um allan heim en hann vonaði að þær myndu ekki hafa bein áhrif á fjárhag einstakra fyrirtækja hér á landi, áhrifin yrðu miklu fremur óbein og kæmu fram í því að erfiðara yrði að nálgast lánsfé.

Ljóst væri að atburðir vikunnar, þ.m.t. gjaldþrot stórbanka, myndu segja til sín. Miklar sveiflur hefðu orðið á mörkuðum og fleiri hávaxtamyntir en sú íslenska veikst. „Ég tel hins vegar að ástandið gagnvart íslensku krónunni sé tímabundið,“ sagði hann.

Aðspurður hvort hann teldi að íslenska krónan myndi styrkjast fyrir áramót sagði Geir að það væri mjög erfitt að spá fyrir um það. „En það kæmi mér ekki á óvart. Ég held hún sé töluvert fyrir neðan það sem eðlilegt getur talist."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert