Reykjavík gagnrýnir áform um landfyllingu á Kársnesi

Hafnarsvæðið á Kársnesi.
Hafnarsvæðið á Kársnesi. mbl.is/ÞÖK

Umhverfis- og samgöngusvið Reykjavíkur segir ekki viðunandi, að eitt sveitarfélaga við Skerjafjörð geti búið til landfyllingu að sveitarfélagamörkum sínum án þess að spyrja aðra. Er þar verið að vísa til fyrirhugaðrar landfyllingar á Kársnesi í Kópavogi.

Umhverfis- og samgöngusvið segir að landfyllingin á Kársnesi gæti haft margvíslegar afleiðingar fyrir Reykjavík: áhrif á lífríki og sjávarstrauma, hávaða- og svifryksmengun eykst og ásýnd Skerjafjarðar breytist.  Kársnesið er nánast fyrir miðju Skerjafjarðar og er m.a. bent á, að Umhverfisstofnun hafi það til skoðunar að friðlýsa Skerjafjörð.

Umhverfis- og samgönguráð ítrekaði á fundi 9. september síðastliðinn verulegar áhyggjur sínar af umhverfisáhrifum vegna fyrirhugaðra skipulagsbreytinga á Kársnesinu í Kópavogi. Ráðið harmaði jafnframt að framkvæmdir stæðu yfir á Kársnesi þótt lögformlegt ferli á umhverfisáhrifum aðgerðarinnar teldist vart hafið. Ráðið óskaði eftir umsögn Umhverfis- og samgöngusviðs um þetta mál og samþykkti hana á fundi sínum í dag, 23. september.

Í umsögninni er lögð rík áhersla á að gerð verði vöktunaráætlun vegna uppbyggingar á Kársnesi. Sviðið telur að skilyrðislaust eigi að gera vöktunaráætlun verði þessi skipulagsbreyting að veruleika. Kópavogsbær hafi á hinn bóginn talið að fyrirhugaðar skipulagsbreytingar kölluðu ekki á sérstaka vöktunaráætlun.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert