Fangelsin verða byggð

Ríkisstjórnin ákvað í gærmorgun að veita 300 til 400 milljónir króna á næstu þremur árum til boðaðra byggingarframkvæmda í fangelsismálum, samkvæmt heimildum 24 stunda.

Í blaðinu í gær var skýrt frá því að togast hefði verið á um fjölmargar stofnframkvæmdir á fundum fjárlaganefndar um helgina en að ekki hefði náðst eining um fjárveitingu til uppbyggingar í fangelsismálum. Það breyttist í gærmorgun og samkvæmt heimildum 24 stunda er fjárveitingin inni á langtímaáætlunum fyrir árin 2009, 2010 og 2011. Drög að fjárlögum fyrir næsta ár voru tekin fyrir á ríkisstjórnarfundi í gær og verða síðan kynnt 1. október.

Aldrei meiri þörf fyrir rými

Páll Winkel, forstjóri Fangelsismálastofnunar, segir ástandið í fangelsismálum afar slæmt og úrbætur því brýnar. „Staðreyndin er sú að aldrei hefur verið meiri þörf fyrir fleiri fangarými. Það verður að hugsa alla hluti til enda og ekki gengur að Alþingi hækki refsiramma í mörgum brotaflokkum og dómarar dæmi einstaklinga til þyngri refsingar án þess að fjölga fangelsisrýmum í réttu hlutfalli. Hegningarhúsið hefur um árabil verið rekið á undanþágu Heilbrigðiseftirlitsins og unnið hefur verið eftir markvissri uppbyggingaráætlun Fangelsismálastofnunar og dómsmálaráðherra sem hefur sýnt málinu fullan skilning og áhuga. Ég reikna með að aðrir stjórnmálamenn geri sér grein fyrir því hversu slæmt ástandið er og úrbætur brýnar. Annað er ábyrgðarlaust.“

Þingmenn sýna skilning

Páll segir stóran hluta þingmanna hafa heimsótt fangelsið á Litla-Hrauni á þessu ári. „Í þeim heimsóknum höfum við Margrét Frímannsdóttir, forstöðumaður á Litla-Hrauni, farið yfir framtíðarsýnina og hvað sé brýnt að gera. Ég hef ekki skynjað neitt nema fullan skilning meðal þeirra þingmanna sem þangað hafa komið á því hversu brýn þörfin er. Það er staðreynd.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert