20 manns sagt upp hjá Vodafone

Tuttugu starfsmönnum hefur verið sagt upp hjá fjarskiptafyrirtækinu Vodafone, en starfsmönnunum var tilkynnt um uppsagnirnar í morgun. Þeir láta strax af störfum, en fá greiddan uppsagnarfrest.

Að sögn Hrannars Péturssonar, upplýsingafulltrúa fyrirtækisins, taka uppsagnirnar til allra deilda fyrirtækisins. „Ytri skilyrði eru mjög óhagstæð fyrir öll fyrirtæki í landinu og við erum auðvitað ekki undanskilin þeirri þróun. Það eru miklar kostnaðarhækkanir í rekstrinum, og ekki síst vegna gengisþróunar,“ segir Hrannar og bætir við að verið sé að grípa til óhjákvæmilegra aðgerða. 

Aðspurður segist hann ekki sjá fram á að fleiri starfsmönnum verði sagt upp á næstunni. 

Um 380 manns starfa nú hjá Vodafone eftir uppsagnirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert