Haustrall Hafró að byrja

mbl.is

Stofnmæling botnfiska að hausti, svonefnt haustrall, er við það að hefjast, en rannsóknaskipið Árni Friðriksson er rétt í þessu að láta úr Reykjavíkurhöfn. Rannsóknaskipið Bjarni Sæmundsson tekur einnig þátt í rallinu frá og með 1. október, en gert er ráð fyrir að það standi út október.


Kristján Kristinsson, leiðangursstjóri á Árna Friðrikssyni, segir að um hefðbundið rall sé að ræða, en togað hefur verið á ákveðnum togstöðvum hringinn í kringum landið á hverju hausti síðan 1996.


Leiðangur Kristjáns byrjar að toga um 120 mílur suðvestur af Reykjanesi og heldur síðan hringinn réttsælis um landið. Togað verður á 219 stöðvum en á 162 stöðvum á Bjarna Sæmundssyni.


Markmið rannsóknarinnar er að meta stærð helstu fiskistofna við landið og verður Árni Friðriksson meira á djúpslóð með áherslu á karfa og grálúðu.
 Samkvæmt niðurstöðunum í fyrra lækkaði heildarvísitala þorsks um 20% frá haustmælingunni 2006 og hafði þá lækkað um 34% frá 2004. Kristján segir að vissulega vonist leiðangursmenn til að stofnarnir séu að braggast en það komi í ljós.


Á hvoru rannsóknaskipi er einn leiðangursstjóri og sex rannsóknamenn.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert