Skoðun en ekki krafa að Davíð víki

Forystumenn Samfylkingarinnar ákváðu í gær að lýsa vantrausti sínu á Davíð Oddssyni seðlabankastjóra í fjölmiðlum. Tekist hefur verið á um bankastjórann innan ríkisstjórnarinnar lengi, en þegar efnahagsósköpin skullu á varð hlé á opinberum átökum til að sýna samstöðu á erfiðum tímum.

Þangað til Davíð Oddsson fór í Kastljós. Upphaf þeirrar atburðarásar sem endaði með hruni Kaupþings, skrifar Samfylkingin á seðlabankastjórann og bætist það við langt syndaregistur Seðlabankans. Ágúst Ólafur Ágústsson, varaformaður Samfylkingar, segir orð sín um Davíð í fjölmiðlum í gær ekki snúast um ríkisstjórnina að neinu leyti. „Flokkurinn hefur ekki gert þetta að kröfu, þetta er bara mín skoðun og ég veit að ég deili henni með mörgum, ekki bara í Samfylkingunni heldur í Sjálfstæðisflokknum líka.“

Ríkisstjórnin situr áfram

„Við getum ekki leyst vandann nema Seðlabankinn sé trúverðugur og Seðlabankinn nýtur ekki trausts í núverandi ástandi, hvorki innanlands né utan,“ segir Ágúst Ólafur Ágústsson. Varaformaðurinn segir engu að síður að hvað sem forsætisráðherra geri í málefnum Seðlabankans treysti þeir honum. Þetta séu óskyld mál. „Ríkisstjórnin stendur fyrir margt annað en Davíð Oddsson og Samfylkingin treystir Geir Haarde, þótt hann vilji hafa sama Seðlabanka áfram,“ segir Ágúst Ólafur. „Ég get gert greinarmun á því hvort ég treysti Davíð eða treysti Geir og ég vona að þjóðin geri það líka. En hlutirnir þurfa nú að gerast mjög hratt. Við göngum nú í gegnum alvarlegustu kreppu sem íslenska þjóðin hefur upplifað. Skaðann þarf að lágmarka og lækka vexti allhressilega strax. Auðvitað er verið að lágmarka skaðann. Fá þarf nýja Seðlabankastjórn og tryggja henni aðgang að lánsfé.“
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert