Hvetur til aðstoðar við Íslendinga

Erna Solberg, leiðtogi Hægriflokksins.
Erna Solberg, leiðtogi Hægriflokksins. AP

Erna Solberg, formaður Hægriflokksins í Noregi, hefur ritað Jens Stoltenberg, forsætisráðherra landsins, bréf þar sem hún hvetur hann til að beita sér fyrir því, að Noregur og önnur Norðurlönd komi Íslendingum til aðstoðar í þrengingum þeirra.

„Já, ég ritaði Stoltenberg bréf og hvatti hann til að ræða við forsætisráðherra annarra Norðurlanda um samræmda aðstoð við Ísland og Íslendinga í þeirri alvarlegu fjármálakreppu, sem þjóðin á við að stríða,“ sagði Solberg í viðtali við Morgunblaðið í gær.

Kvaðst Solberg annaðhvort eiga von á formlegu svari frá Stoltenberg eða þá, að hann léti hendur standa fram úr ermum í þessu máli, sem væri auðvitað besta svarið.

Mikilvægt út á við

„Ég tel mjög mikilvægt, ekki síst út á við, að Norðurlöndin taki af allan vafa um, að þau ætli að standa með Íslendingum í þessum erfiðleikum,“ sagði Solberg og hún kvaðst vita, að á þessu máli væri mikill skilningur og velvild meðal norskra þingmanna yfirleitt. Hefðu raunar margir vikið sérstaklega að því í umræðum um norsku fjárlögin og önnur mál.

Solberg sagði, að í bréfi sínu til Stoltenbergs hefði hún ekki rætt um með hvaða hætti Íslendingar skyldu aðstoðaðir enda nokkuð ljóst hver þörfin væri í þeim efnum. Kvaðst hún búast við, að Stoltenberg myndi á næstu dögum ræða þetta mál við starfsbræður sína á Norðurlöndum og bætti við, að auk beinnar fjárhagsaðstoðar gætu Norðmenn lagt sitt af mörkum í tæknilegum efnum. Þeir hefðu gengið í gegnum sína bankakreppu snemma á síðasta áratug. Þá hefðu bankarnir verið þjóðnýttir en væru nú aftur komnir í einkaeigu að mestu leyti.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert