Vara við Suðurlandsvegi

Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur gefið út varnaðarskýrslu um Suðurlandsveg. Tilefni skýrslunnar er sá fjöldi alvarlega umferðarslysa sem þar hefur orðið undanfarin ár, þ.m.t. fjögur banaslys árið 2007 og þegar og þegar hafa orðið tvö banaslys árið 2008.

 Algengasta tegund banaslysa í umferðinni á Íslandi undanfarin ár er útafakstur en á Suðurlandsvegi hafa 11 af síðustu 12 banaslysum verið árekstur tveggja eða fleiri bíla sem koma úr gagnstæðum áttum.

Aðalorsakir banaslysa á Suðurlandsvegi eru talsvert frábrugðnar algengustu orsökum banaslysa á landsvísu. Dæmigert banaslys í umferðinni á Íslandi er  útafakstur þar sem ökumaður er ölvaður, jafnvel um ofsaakstur að ræða og bílbelti ekki notuð. 

Dæmigert banaslys á Suðurlandsvegi milli Reykjavíkur og Selfoss  undanfarin ár er ökumaður sem missir bifreið sína yfir á rangan vegarhelming vegna veikinda eða þreytu og ekur framan á aðra bifreið sem ekið er úr gagnstæðri átt. Sá sem ekur úr gagnstæðri átt hefur lítinn tíma til að bregðast við, jafnvel þótt hann fylgi settum reglum um hraða á veginum sem annað, að því er segir í skýrslu Rannsóknarnefndar umferðarslysa.

Aðgreining akstursstefna nauðsynleg

Tilhugsunin ein um að eiga hættu að lenda í þessum aðstæðum er ógnvænleg og raunveruleg, sérstaklega á þessum hluta þjóðvegarins. Að mati nefndarinnar er aðgreining akstursstefna nauðsynleg aðgerð til að sporna við þeim fjölda harðra framanákeyrslna.

Rannsóknarnefnd umferðarslysa beinir því til stjórnvalda að leita allra mögulegra leiða til að auka öryggi vegfarenda um Suðurlandsveg.

„Mikilvægt er að brugðist sé við hratt og markvisst því fjöldi slysa og alvarleiki þeirra er slíkur að ekki verður við unað. Undanfarin ár hefur nefndin farið á vettvang alvarlegra umferðarslysa á milli Hveragerðis og Selfoss.

Að mati nefndarinnar er aðgreining akstursstefna áhrifaríkasta leiðin til að auka umferðaröryggi á þessum hættulega vegkafla. Hafin er hönnun tvöföldunar vegarins á þessum stað en Rannsóknarnefnd umferðarslysa hefur miklar áhyggjur af öryggi vegfarenda á þessum kafla vegna eðlis og fjölda slysa sem nefndin hefur rannsakað þar.

Síðastliðin fimm ár hefur nefndin farið fimm sinnum á vettvang alvarlegs umferðarslyss á þessum 12 km kafla, þar af hafa fjögur slys orðið undanfarin tvö ár. Telur nefndin nauðsynlegt að bregðast við sem skjótast með bráðabirgðalausnum til að auka öryggi á veginum og komast hjá frekara manntjóni þar til búið sé að opna veg sem aðskilur akstursstefnur. Í því samhengi leggur nefndin til að hámarkshraði verði lækkaður á kaflanum í 70 km/klst. samhliða öflugri löggæslu og unnið verði að því að bæta tengingar inn á veginn með betri merkingum og auknu rými," að því er segir í skýrslunni.

Skýrslan í heild

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert