Fleirum boðið starf á ný

Nokkrir tugir starfsmanna Landsbankans, sem hafði verið sagt að þeir myndu missa vinnuna við stofnun Nýja Landsbankans, hafa nú fengið þær fregnir að þeim verði eftir sem áður boðið starf í nýja bankanum.

Starfsmannastjóri segir að eftir eigi að segja formlega upp starfsmönnum gamla bankans og semja við þá sem fá áframhaldandi vinnu um kaup og kjör. Atli Atlason, starfsmannastjóri Nýja Landsbankans, segir að við stofnun bankans á dögunum hafi verið búinn til ákveðinn rammi utan um starfsemina.

„Til að eyða óvissunni létum við starfsfólk strax vita hvort því yrði boðið starf í nýjum banka eða ekki. Um helgina sáum við að við hefðum fleiri laus störf hér og þar í bankanum og buðum þá fólki, sem við höfðum sagt að fengi ekki áframhaldandi vinnu, starf á öðrum stað í nýja bankanum,“ segir Atli og telur að um nokkra tugi starfsmanna sé að ræða.

Alls fái um 300 starfsmenn ekki starf í nýjum banka. Hann bætir því við að enn hafi engum verið sagt upp störfum.

„Það á eftir að ganga frá því formlega og síðan á eftir að semja við alla sem verður boðið starf í nýja bankanum um ný kjör,“ segir hann. Sumir muni halda óbreyttum kjörum en aðrir muni fá breytta launasamninga.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert