Sundlaugar og knatthús bíða betra árfars

mbl.is/Skapti

25 metra innisundlaug á Akranesi og sextán metra skólasundlaug á Selfossi eru meðal þeirra verkefna sem sveitarfélög hafa sett á ís vegna efnahagsþrenginganna. Hafnfirðingar hafa ákveðið að fresta framkvæmdum við gatnagerð og frágangi á nýbyggingarsvæðum fyrir 900 milljónir á árinu, segir bæjarstjórinn Lúðvík Geirsson.

Óvissa er um þónokkur verkefni sveitarfélaganna svo sem leikskóla við Austurkór í Kópavogi. Steingrímur Hauksson, sviðsstjóri framkvæmda- og tæknisviðs Kópavogsbæjar, segir nú metið hvort þörf sé á leikskólaplássunum. Ákvörðunin verði tekin eftir viku. Þá er alls óvíst hvort 4.000 fermetra knatthús rísi í bráð í Vestmannaeyjum. Bjóða átti bygginguna út 11. nóvember. Ólafur Þór Snorrason, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs í Eyjum, segir að ákveðið hafi verið að bíða með útboðið. „Við vitum ekkert um framhaldið á þessari stundu.“

Jón Pálmi Pálsson, bæjarritari á Akranesi, segir að útboðið í átta brauta innisundlaugina við Jaðarbakka hafi verið komið í auglýsingu þegar ákvörðun var tekin um að fresta framkvæmdum. Áætlað var að sundlaugin kostaði milli 500 og 600 milljónir króna. Verktíminn var frá áramótum til vordaga 2010. „Allt var tilbúið og búið að auglýsa verkið. Stöðvunin var því ákveðin vonbrigði fyrir bæjarbúa og verktaka, en nauðsynleg vegna óvissunnar í efnahagsmálum,“ segir Jón Pálmi.

Á Selfossi hafði farið fram forval á verktökum til að byggja skólasundlaug við Sunnulækjarskóla. Guðmundur Elíasson, framkvæmdastjóri framkvæmda og veitusviðs bæjarfélagsins, segir verkið í bið meðan menn átti sig betur á ástandinu. „Verkið fer aftur á dagskrá þegar rofar til í efnahagsmálum,“ segir hann. „Við byrjum ekki á neinu sem var komið á áætlun. En við stöndum við gerða samninga.“

Óskar Bergsson, formaður borgarráðs sem og framkvæmda- og eignaráðs Reykjavíkurbogar, segir engar ákvarðanir hafa verið teknar um stöðvun framkvæmda í borginni. „Við erum að endurskoða framkvæmdapakkann hjá okkur og munum skoða niðurstöðuna miðað við efnahagsástandið. Það seljast nánast engar lóðir og því erum við eðlilega ekki að fara af stað við uppbyggingu nýrra hverfa við slíkar aðstæður.“ Hann segir þó ekkert framkvæmdastopp í borginni en horft verði til verkefna sem auki ekki rekstrarútgjöld borgarinnar.

Á Álftanesi hefur opnun útboðs á 1. áfanga viðbyggingar við grunnskólann verið frestað fram í nóvember. „Óákveðið er með frekari frestun á þeirri framkvæmd,“ segir Skarphéðinn Jónsson, tæknistjóri sveitarfélagsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert