Lokagreiðsla vegna Ellu Dísar týnd

Ella Dís.
Ella Dís. mbl.is

Móðir Ellu Dísar Laurens andaði léttar þegar hún í byrjun mánaðarins sendi lokagreiðslu vegna meðferðar dóttur sinnar í Bandaríkjunum. Þá átti hún ekki von á að bankakreppan á Íslandi ætti eftir að setja stórt strik í reikninginn.

Mál Ellu Dísar, sem er tæplega þriggja ára, vakti talsverða athygli í fjölmiðlum í síðasta mánuði en hún berst við óþekktan sjúkdóm. Þvert á ráðleggingar íslenskra lækna leitaði móðir hennar, Ragna Erlendsdóttir, meðferðar í Bandaríkjunum fyrir dóttur sína. Efnt var til söfnunar til að styrkja þær mæðgur og í byrjun mánaðarins gekk Ragna frá lokagreiðslu til spítalans. „1. október keypti ég 50 þúsund dollara ávísun hjá Glitni sem bankinn tók að sér að senda fyrir mig út,“ segir Ragna.

„Greiðslan átti að vera rétt rúmlega fimm milljónir íslenskar en vegna falls íslensku krónunnar dagana á undan hafði hún hækkað upp í fimm og hálfa milljón.“

Þremur vikum síðar fékk Ragna símhringingu frá spítalanum í Bandaríkjunum þar sem gengið var eftir greiðslunni. Þegar farið var að grennslast fyrir um málið virtist ávísunin týnd í kerfinu. „Síðastliðinn föstudag millifærði bankinn aftur til mín þessar fimm og hálfa milljón en í dag kosta 50 þúsund dollarar sex milljónir króna. Ef ekkert verður gert hefur Glitnir, sem ég treysti fyrir að koma þessari greiðslu áleiðis, beinlínis af mér hálfa milljón króna.“

Ragna er ekki ánægð með þessa afgreiðslu mála. „Ég keypti einfaldlega dollara á þessum tíma og ef bankinn getur ekki gert það sem hann ætlaði á hann að skipta þessum dollurum yfir í íslenskar krónur sem eru sex milljónir í dag því ég þarf að standa skil á þessum 50 þúsund dollurum. Það var nógu erfitt að horfa á eftir hálfri milljón þarna í byrjun mánaðarins þótt ég þyrfti ekki að sjá á eftir hálfri milljón í viðbót.“

Þegar Ragna gekk frá greiðslunni voru ekki komin á gjaldeyrishöft og bankaviðskipti milli landa gengu enn sinn vanagang. Í dag veit hún hins vegar ekki hvernig og hvort muni takast að senda peningana út.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert