Geir þakkar Færeyingum

Geir H. Haarde.
Geir H. Haarde. Reuters

Geir Haarde forsætisráðherra þakkar Færeyingum fyrir að rétta fram hjálparhönd á erfiðum tímum í samtali við færeyska ríkisútvarpið í dag. Hann bendir á að lánið, sem nemur 300 milljónum danskra kr., marki þáttaskil í viðleitni Íslands að fá önnur ríki til að gera slíkt hið sama.

Hann bendir á að hvorki liggi fyrir á þessari stundu hvenær Íslendingar fái lánið né hver lánskjörin séu. Það eigi eftir að ræða nánar. Hins vegar muni Íslendingar að sjálfsögðu greiða lánið til baka.

Þá segir Geir að Íslendingar stefni að því að komast upp úr þessari kreppu sem fyrst.

Geir sagði við blaðamenn í Reykjavík í dag, að færeyskir ráðherrar hefðu óskað eftir fundi með sér og Árna Mathiesen í Helsinki í gær en ekki hefði þá komið fram hvert tilefnið væri. Geir sagðist hafa haldið, að Færeyingarnir vildu fá upplýsingar um stöðu mála hér á landi og það tókst að koma á stuttum fundi áður en íslensku ráðherrarnir héldu heim á leið. Á fundinum kom fram tilboð færeyskra stjórnvalda um að lána Íslendingum fé og sagði Geir það vera mikið drengskaparbragð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert