Mikill drengskapur Færeyinga

Geir H. Haarde á þingi Norðurlandaráðs í gær.
Geir H. Haarde á þingi Norðurlandaráðs í gær. Reuters

„Þetta er ótrúlega höfðinglegt af þeim,“ segir Geir H. Haarde, forsætisráðherra, um ákvörðun færeysku landstjórnarinnar þess efnis að veita Íslandi 300 milljóna danskra króna gjaldeyrislán, jafnvirði um 6,1 milljarðs króna.

Geir H. Haarde segir að færeyska sendinefndin á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki hafi síðdegis í gær óskað eftir fundi með sér og Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra, og á þeim fundi hafi Færeyingarnir tilkynnt þeim fyrrnefnda ákvörðun. Ákveðið hafi verið að þiggja lánið og munu fjármálaráðherrar landanna koma málinu í réttan farveg.

Eins og fram hefur komið hefur Ísland óskað eftir um 240 milljarða króna láni frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum auk annarra lána frá Seðlabanka Bandaríkjanna, Seðlabanka Evrópu og seðlabönkum Norðurlandanna, en Færeyingar eru fyrstir til þess að staðfesta lánveitingu. „Þetta er mikið drengskaparbragð af þeirra hálfu,“ segir Geir og bætir við að pólitísk samstaða ríki um málið í Færeyjum og það sé ekki síður mikils virði.

Svíi í forsæti

Beiðni um lán frá seðlabönkum Norðurlandanna er í réttum farvegi, eins og haft var eftir Geir í Morgunblaðinu í gær. Hann segir að nefnd embættismanna undir forsæti Svía hafi verið skipuð í gær til að fylgja málinu eftir.

Forsætisráðherrar Norðurlandanna áttu þrjá fundi í gær. Auk fjármálakreppunnar á Íslandi ræddu þeir meðal annars um Eystrasaltsstefnu ESB, sem verður lögð fram í júní á næsta ári, hnattvæðingu og leiðtogafund Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál sem verður haldinn í Kaupmannahöfn 2009.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert