Öllum starfsmönnum BYGG sagt upp

BYGG hefur meðal annars unnið að veglegri uppbyggingu íbúða í …
BYGG hefur meðal annars unnið að veglegri uppbyggingu íbúða í Sjálandshverfinu í Garðabæ. Þorkell

Öllum starfsmönnum Byggingafélags Gunnars og Gylfa (BYGG), 160 talsins, var fyrr í dag sagt upp störfum vegna erfiðra rekstrarskilyrða. Starfsmenn hafa val um að vinna út lögbundinn uppsagnarfrest. Þá var starfsmönnum tilkynnt um það að vinna sé í boð fyrir þá að nýju, breytist efnahagsaðstæður.

„Við erum með gott starfsfólk sem sýndi þessu skilning. Flestir starfsmenn eru með uppsagnarfrest í þrjá mánuði. En vitanlega hafa allir miklar áhyggjur af þeirri stöðu sem upp er komin á Íslandi. Hvar endar þetta eiginlega?,“ segir Gunnar Þorláksson, annar eigenda BYGG.

„Ég hef verið í þrjátíu ár í byggingariðnaðinum en ég man ekki eftir viðlíka tímum og núna. Það er gríðarlega erfitt að vera segja upp öllu því góða starfsfólki sem hjá okkur hefur starfað. En ég trúi því að við munum ná okkur upp úr þessu. Ísland hefur áður gengið í gegnum erfiðleika og náð vopnum sínum að lokum. Núna reynir á alla, vinnuveitendur og starfsfólk,“ segir Gunnar.

BYGG, sem stofnað var 1984, hefur verið stórtækt í uppbyggingu fasteigna á undanförnum árum. Fyrirtækið hefur byggt um 2.000 íbúðir víðsvegar um höfuðborgarsvæðið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert