Miðist við pund en ekki krónu

mbl.is

Lagt er til á Kirkjuþingi að embættiskostnaður og annar kostnaður en laun presta þjóðkirkjunnar erlendis, verði miðaður við mynt viðkomandi lands en ekki íslensku krónuna.

Í greinargerð með tillögunni segir að miklar sveiflur í gengi íslensku krónunnar hafi haft í för með sér umtalsverða skerðingu á launum og öðrum greiðslum til presta í útlöndum. Ekki sé unnt að bæta launaskerðinguna en nauðsynlegt hefur verið talið að leiðrétta staðaruppbætur og embættiskostnað að nokkru.

Kirkjuráð samþykkti um miðjan mánuð aukafjárveitingu til biskupsstofu til að unnt sé að greiða prestunum í London, Kaupmannahöfn og Gautaborg sérstaka staðaruppbót, eina milljón króna hverjum. Prestur meðal Íslendinga í Noregi fær ekki staðaruppbót þar sem hann er ekki á launum hjá þjóðkirkjunni, heldur fær laun frá söfnuðinum þar.

Til að tryggja  eðlilega framtíðarskipan þykir rétt að breyta starfsreglum um þjóðkirkjuna erlendis á þann veg að þær feli í sér ótvíræða heimild til þess að greiða íslenskum prestum í útlöndum embættiskostnað og annan kostnað en laun í mynt viðkomandi lands.
Í greinargerð með tillögu sem Kirkjuþing ræðir er bent á að starfsmenn utanríkisþjónustu íslenska lýðveldisins fái staðaruppbætur greiddar í mynt viðtökulandsins. Eðlilegt megi telja að sami háttur sé hafður á með slíkrar greiðslur til presta erlendis enda tengist störf þeirra yfirleitt starfsemi íslenskra sendiráða.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert