Uppboð jafnmörg og allt árið 2007

mbl.is/ÞÖK

Nauðungarsölur fasteigna í umdæmi Sýslumannsins í Reykjavík voru 49 talsins í októbermánuði, sem er nærri fimmföldun frá sama mánuði á síðasta ári. Fyrstu tíu mánuði ársins eru nauðungarsölur orðnar álíka margar og allt árið í fyrra, eða 135, borið saman við 137 árið 2007. Árið 2006 fóru fram um 90 nauðungarsölur í umdæminu, sem nær yfir Reykjavík, Seltjarnarnes, Mosfellsbæ og Kjósarhrepp.

Beiðnir um nauðungarsölu eru hins vegar álíka margar og á sama tíma í fyrra, eða kringum 2.000. Skráðar beiðnir um nauðungarsölu vegna fasteigna voru 2.482 árið 2007 en eru ríflega 2.000 eftir fyrstu tíu mánuði þessa árs.

Samkvæmt upplýsingum frá sýslumannsembættinu fóru 70 bílar á uppboð í októbermánuði og frá áramótum hafa alls 409 ökutæki hlotið sömu örlög. Það er nærri því jafnmikið og allt síðasta ár þegar 419 bílar fóru á uppboð. Alls voru skráðar beiðnir um nauðungarsölu bifreiða 1.971 árið 2007 en í lok september sl. voru beiðnirnar orðnar nærri 1.600.

Samdráttur á fasteignamarkaði á höfuðborgarsvæðinu sést vel í tölum embættisins um þinglýsingar. Í lok október sl. voru þinglýst skjöl alls ríflega 34 þúsund, sem er um þriðjungsfækkun frá sama tíma í fyrra þegar þinglýsingar voru komnar í nærri 53 þúsund.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert