Farþegum um Flugstöðina fækkaði um fjórðung

Farþegum sem fóru um Flugstöð Leifs Eiríkssonar fækkaði um tæp 23% í október miðað við sama tíma í fyrra, úr 185 þúsund farþegum árið 2007 í 143 þúsund farþega nú. Farþegum til og frá Íslandi fækkaði um rúmlega 25% milli ára, en farþegum sem millilenda hér á landi á leið yfir Norður-Atlantshafið fækkaði um tæp 4%.

Þegar tölur eru skoðaðar á heimasíðu Flugstöðvarinnar, sést að fara þarf aftur til áranna 2001 og 2002 til að finna viðlíka samdrátt í fjölda farþega. Í kjölfar hryðjuverkaárásanna í New York hinn 11. september 2001 fækkaði farþegum um Keflavíkurflugvöll verulega. Fækkun farþega í nóvember 2001 var þannig 23,2% miðað við nóvember árið 2000. Í apríl 2002 fækkaði farþegum um 27,4% miðað við apríl 2001. Er þetta mesta fækkunin, sem lesa má út úr tölum Flugstöðvarinnar.

Frá árinu 2003 hefur verið stöðug fjölgun farþega um Keflavíkurflugvöll eða allt fram í apríl á þessu ári. Þá fækkaði farþegum um 14,9% frá apríl í fyrra. Fækkun hefur verið í öllum mánuðum þessa árs síðan þá. Tíu fyrstu mánuði þessa árs hefur farþegum fækkað úr 1.918.083 í 1.808.900 eða um 5,7%. Allt árið í fyrra fóru 2.182.232 farþegar um Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Það met mun augljóslega standa um ófyrirséða framtíð.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert