Ríkissjóður ekki aflögufær

Árni Mathiesen ávarpaði fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í morgun.
Árni Mathiesen ávarpaði fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna í morgun. mbl.is/Kristinn

 Árni Mathiesen fjármálaráðherra ávarpaði fjármálaráðstefnu Sambands íslenskra sveitarfélaga nú í morgun. Í máli hans kom fram atvinnulausum hefur fjölgað um 1.300 frá októberbyrjun fram til dagsins í dag. Þá sagði hann atvinnuleysi munu hækka verulega í næsta mánuði og verða um 3,5%. Hann sagði ljóst að þessi þróun nú leggist langþyngst á höfuðborgarsvæðið, hvað sem síðar kann að verða.

Hann sagði skatttekjur dragast saman á næstunni, útgjöld minnka og vaxtamunur verða neikvæður svo verulegu máli skiptir. Þá muni eftirspurn og hagvöxtur dragast mjög hratt saman. Þó sagði hann óvissu ríkja um flesta þætti í ríkisfjármálunum.  Hann sagði ekki ólíklegt að tekjur ríkissjóðs gætu dregist saman um fjórðung á milli áranna 2008 og 2009. 

Hann sagði þá liggja fyrir að framlög ríkissjóðs til jöfnunarsjóðs sveitarfélaga geti dregist saman um allavega 10%.

Árni talaði einnig um skuldir ríkissjóðs, sem hafa aukist mjög að undanförnu, ekki síst vegna yfirtöku á viðskiptabönkunum og yfirtöku á skuldabréfum þeim tengdum. Hann sagði ljóst að hið opinbera þurfi að skera niður útgjöld verulega á næstu árum. Bæði ríki og sveitarfélög. Hann sagði að ríkissjóður yrði ekki aflögufær til þess að minnka skuldir sveitarfélaganna á næstu árum.

Hann mælti með setningu fjármálareglna fyrir sveitarfélög, til þess að liðka fyrir því að draga úr útgjöldum hins opinbera. Einnig tók hann fram í svari við fyrirspurn fundarmanns að samráð ríkis og sveitarfélaga þyrfti að þétta á næstunni og leggja eldri deilumál góðæristíma til hliðar.

Versta staða sem hefur sést

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, sagði í setningarræðu sinni fyrr í morgun að fjárhagsstaða sveitarfélaganna nú væri sú langversta sem hefði sést. Hann greip til margnotaðrar myndlíkingar og sagði sveitarfélög nú sigla löskuðu fleyi til lands. Hann sagði sveitarfélögin þurfa að leita til síns fjárhagslega bakhjarls, ríkisins, og sagði fjármálaráðherra sýna því skilning þó hann standi sjálfur frammi fyrir alvarlegum vanda ríkissjóðs.

Hann sagði árið 2007 ekki viðmiðunarhæft við neitt, þegar fjárhagur sveitarfélaga er annars vegar. Lóðasala, sem var stór hluti tekna sveitarfélaga á þeim tíma, er nú að koma til baka í höfuðið á stjórnendum sveitarfélaganna þar sem lóðum er skilað í miklu magni.

Halldór talaði einnig um gjaldskrár sveitarfélaga og lagði áherslu á að sveitarfélög í landinu fylgist að í þeim málum á næstu misserum. Hann kvað það óábyrgt að segja að skattar og gjöld verði ekki hækkuð á næstunni, það sé ekki hægt nema að draga úr þjónustu. Þá talaði hann um nauðsyn þess að standa vörð um grunnþjónustu sveitarfélaga.

Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga. mbl.is /Ásdís Ásgeirsdóttir
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert