Utanaðkomandi mál tefja afgreiðslu IMF

Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.
Höfuðstöðvar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins í Washington.

Talsmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF) segir nú að utanaðkomandi mál, sem hugsanlegir lánardrottnar Íslands hefðu tekið upp, tefðu afgreiðslu lánasamnings sjóðsins við Íslendinga. 

Reutersfréttastofan segir, að IMF hafi til þessa ekki viljað tjá sig um hvers vegna afgreiðslan á áætlun Íslands hafi tafist en sagt að fjármögnun áætlunarinnar þurfi að vera að fullu tryggð áður en framkvæmdastjórn sjóðsins geti tekið afstöðu til hennar. 

Þegar gengið var á David Hawley, talsmann sjóðsins, á vikulegum blaðamannafundi í Washington í gærkvöldi, sagði hann: „Við erum að ræða um ýmis mál, sem hugsanlegir lánardrottnar hafa tekið upp, þar á meðal að meta skuldbindingar Íslands varðandi erlend innlán bankanna þriggja, Glitnir, Landsbankans og Kaupþings, sem nú hafa verið teknir yfir."

Hawley sagði að árangur hefði náðst í þeim viðræðum og stjórnarfundur IMF um málið yrði haldinn á næstunni. 

Á fréttavef Wall Street Journal er haft eftir Geir H. Haarde, forsætisráðherra, að hann telji að IMF haldi að sér höndum varðandi afgreiðslu samnings við Íslands um 2,1 milljarðs dala lánveitingu þar til önnur ríki staðfesti að þau muni leggja Íslandi til lánsfé. Alls er gert ráð fyrir að Ísland þurfi 6 milljarða dala lán. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert