Prestur fagnar úrsögnum úr þjóðkirkjunni

Hjörtur Magni Jóhannsson.
Hjörtur Magni Jóhannsson.

Séra Hjörtur Magni Jóhannesson prestur Fríkirkjunnar í Reykjavík sagði í prédikun í dag að það væru góðar fréttir fyrir kristni í landinu að þúsundir manna hefðu skráð sig úr þjóðkirkjunni á síðustu árum.

„Alls staðar í heiminum þar sem ríkiskirkjur eins og þjóðkirkjur eru enn starfandi eru þær á hröðu undanhaldi og skaða trúverðugleika kristninnar í upplýstum samfélögum. Það sem heldur þeim gangandi eru milljarða framlög frá ríkinu umfram önnur trúfélög og þau skaðast af," sagði Hjörtur Magni í prédikun sem sem útvarpað var í Ríkisútvarpinu.

„Hér áður fyrr voru ríkiskirkjur eins konar stjórnunartæki í höndum veikburða stjórnvalda. Það er ekki ásættanlegt að málefni kristinnar kirkju, friðarhöfðingjans Jesú Krists, séu í sömu skrifborðsskúffum og vopnaðar öryggissveitir sem beita táragasúðum eða tollvarða- og lögregluvarðsveitir  dóms- og kirkjumálaráðuneytis. Það gengur ekki upp."

Hjörtur Magni sagði að trúmál væru einkamál og við þyrftum ekki „ráðuneyti einkamála í hinu nýja Íslandi."

„Með gagnrýni minni á þjóðkirkjuna, sem er í raun stofnun sem rekin er af hinu opinbera, fær umboð sitt fyrst og fremst frá hinu veraldlega valdi og er sem útibú ríkisstjórnar frá ráðuneyti Björn Bjarnasonar dóms- og kirkjumálaráðherra, þá er ég með gagnrýni minni að uppfylla mínar evangelísku lúthersku trúarlegu skyldur sem ættu því að vera lögvarðar samkvæmt stjórnarskrá rétt eins og lýðræðið sjálft. Við erum, þó því sé ekki mikið haldið á lofti, mótmælendakirkja."

Hjörtur Magni sagði að sín evangelsíka kirkja byggi ekki við þá verndun sem stjórnarskráin kvæði á um heldur hefði hún búið við hróplegt mismunun af hálfu hins opinbera og þjóðkirkjunnar. 

„Sú lagaumgjörð sem er í gildi í dag um þjóðkirkju og önnur trúfélög út frá því, er hvorki í samræmi við ákvæði stjórnarskrár né í samræmi við grundvallaratriði þeirrar evangelísku lútherskutrúar sem þjóðkirkjan er sögð játa."

Hann sagði að lögin sem að baki lægju væru úr sömu smiðju og kvótalöggjöfin. Hann sagði að lögin væru byggð á hugmynd um  kirkjusögulegan arf þjóðarinnar sem safnast hefði upp í þúsund ár. „Arfurinn er ekki greiddur út til erfingjanna sem er auðvitað öll hin íslenska þjóð sem borgað hefur sinn þvingaða kirkjuskatt í aldanna rás. Nei, með lögunum sem sett voru fyrir um 11 árum síðan, var búið til sérfélag einkaerfingja alls kirkjusögulegs arfs þjóðarinnar sem er í dag hin ríkisrekna þjóðkirkjustofnun; eins konar sértrúarfélag ríkisins. Og sá einkaerfingjaklúbbur var ekki skilgreindur út frá þeirri trú sem trúfélög skilgreina sig almennt út frá. Nei, sá einkaerfingjaklúbbur alls kirkjusögulegs arfs, sem nú nemur eitthvað á fimmta milljarð króna ár hvert, hann er valinn vegna stærðarinnar og sérstakra tengsla við ríkisstjórn þess tíma."

Hann sagði að með löggjöf sem sett hefði verið á síðustu árum hefði verið stigið mörg skref í átt til myrkra miðalda hvað varðar trúfélagafrelsi og jafnræði trúfélaga.

Hjörtur Magni sagði að tal „kirkjustofnunarinnar" hefði allt og oft einkennst af „niðurdrepandi tali um synd, iðrun, sekt og yfirbót" Sagði hann að mikill meirihluti þjóðarinnar væri saklaus og án sektar á því sem gerst hefði í efnahagsmálum þjóðarinnar. „Við megum ekki festast í sektarkennd að sjálfásökunarhugsunum. ... Við höfum enga þörf fyrir sektar- og syndatala á þessum krepputímum þegar kreppir að okkur í þessu dimma skammdegi. Við þurfum von. Við þurfum bjarta framtíðarsýn, birtu uppörvun og hvatningu."

Hann sagði að við þyrftum að endurmeta hugmyndafræðina sem nú hefði beðið skipbrot. „Það felast mörg óvænt og spennandi í því tækifæri í því upplausnarástandi sem nú ríkir."

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert