Eins og að rukka fyrir klósettferðir

Stómaþegum hefur nú verið tilkynnt af hjálpartækjaverslunum að þeir þurfi að borga fyrir vörurnar sjálfir þar sem greiðsla Tryggingastofnunar hrekkur ekki til.

Stómaþegar eru um þrjúhundruð og eru allt frá barnsaldri,  margir eru öryrkjar eða ellilífeyrisþegar með mjög lágar tekjur. Jón Þorkelsson formaður Stómasamtakanna segist fá tvö til þrjú símtöl á dag þar sem fólk sé hoppandi brjálað eða grátandi yfir ástandinu. Þeir sem selji vöruna séu að gefast upp enda séu viðskiptavinirnir í sjokki.

Hjálparvörur fyrir stómaþega hafa verið gjaldfrjálsar í meira en áratug en það verð sem Tryggingastofnun greiðir hefur hinsvegar ekki hækkað í sex ár. Fyrir tæpu ári þegar þesssar vörur hækkuðu mikið vegna falls íslensku krónunnar knúðu birgjar fram hækkun á verðinu í Heilbrigðisráðuneytinu.  Hækkunin hefur hinsvegar ekki skilað sér með fyrrgreindum afleiðingum. Jón Þorkelsson segist hafa reynt að hringja í fjármálaráðherra og skrifa honum en ekki fengið nein svör. Hann segist óttast að þetta sinnuleysi verði til þess að ástandið verði eins og í Úkraínu, að fólk fari að reyna að nota pokann utan af heilhveitibrauðinu eða láta duga það sem berist í hjálparaðstoð frá öðrum vestrænum ríkjum.

Kona sem hafði samband við fréttastofu MBL sagði að móðir sín á níræðisaldri sem er stómaþegi eftir að hafa fengið ristilkrabbamein þurfi nú að borga tuttugu þúsund á mánuði í stómavörur en fyrir borgar hún fjórtán þúsund krónur í lyf.

Edda Ólafsdóttir stómahjúkrunarfræðingur segir að margir örorku og ellilífeyrisþegar séu skelkaðir enda um stóran hluta af ráðstöfunartekjum þeirra að ræða. Hún segir að fólk verði að skilja að þetta séu lífsnauðsynlegar vörur. Þetta sé eins og að segja heilbrigðu fólki að miða við að fara einu sinni á sólarhring á klósettið en greiða fimmþúsund kall fyrir skiptið umfram það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert