Fetar í fótspor Davíðs

mbl.is/Ómar

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fetaði í fótspor Davíðs Oddssonar með því að ráða Kristínu Árnadóttur sem sendiherra, sagði Birkir Jón Jónsson, þingmaður Framsóknar á Alþingi í morgun. Sagði Birkir Valgerði Sverrisdóttur hafa lagt af pólitískar ráðningar meðan hún var í utanríkisráðuneytinu en að Ingibjörg tæki þær nú upp að nýju.

Birkir tók þó skýrt fram að hann efaðist ekki um að Kristín væri hæf en að hún væri hins vegar einungis búin að vera í eitt ár í utanríkisráðuneytinu meðan fjöldi hæfra starfsmanna þar hefðu unnið í langan tíma í utanríkisþjónustunni. Þá spurði Birkir hvernig væri réttlætanlegt að fjölga sendiherrum nú þegar ætti að fækka þeim.

Ingibjörg Sólrún áréttaði að sendiherrum fækkaði um sex en fjölgaði ekki. Kristín hefði verið skipaður skrifstofustjóri í ráðuneytinu og fengið þá um leið titilinn sendiherra. Hún væri ekki að fara utan. „Ég taldi mjög mikilvægt að þessi skrifstofa yrði til og það fengist betra utanumhald um yfirstjórnina í ráðuneytinu,“ sagði Ingibjörg Sólrún og bætti við að hún og ráðuneytisstjórinn hefðu bæði átt við veikindi að stríða og teldu nauðsynlegt að styrkja yfirstjórnina í ráðuneytinu.

Þá sagði Ingibjörg nú hafa skapast svigrúm til að fjölga konum sem hefðu hingað til verið mjög fáar í hópi sendiherra. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert