Aðgerðirnar kynntar eftir helgi

Ríkisstjórn Íslands.
Ríkisstjórn Íslands. mbl.is/Brynjar Gauti

Ríkisstjórnin mun skýra frá þeim aðgerðum sem hún hyggst grípa til í því skyni að koma fyrirtækjum landsins til hjálpar eftir helgina, að sögn Grétu Ingþórsdóttur, aðstoðarmanns forsætisráðherra.

Fulltrúar atvinnulífsins, verkalýðshreyfingarinnar og sveitarfélaga komu saman til fundar með fjórum ráðherrum ríkisstjórnarinnar í Ráðherrabústaðnum í dag til að fara yfir stöðu mála.

Gréta segir fundinn hafa verið gagnlegan, en auk Geirs H. Haarde forsætisráðherra sátu hann Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra og Árni Mathiesen fjármálaráðherra.

„Það var farið vel yfir marga hluti. Menn voru að lýsa stöðunni eins og hún blasir við þeim og hvaða aðgerðir þeim finnst aðkallandi að ráðast í. Menn lýstu yfir vilja til samráðs á báða bóga,“ segir Gréta. 

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, sat fundinn í Ráðherrabústaðnum.

Aðspurður um efni fundarins segir Gylfi að þrýst hafi verið á ríkisstjórnina að skýra frá þeim aðgerðum sem hún hyggst grípa til í því skyni að koma fyrirtækjum landsins til hjálpar.

„Samtök á vinnumarkaði, launamegin og atvinnuveitendamegin, funduðu í gær og þessi fundur í dag var framhald á því. Við vorum ásamt fulltrúum Samtaka atvinnulífsins ákveðin í að fá fram upplýsingar um hvar það markmið ríkisstjórnarinnar væri statt sem kynnt var fyrir tveimur vikum um aðgerðir gagnvart fyrirtækjunum. Við erum alveg sammála Samtökum atvinnulífsins í því að það er ákaflega mikilvægt að fá slíkar aðgerðir fram sem fyrst, vegna þess að það er verið að segja upp okkar fólki í þúsundavís. Það er mikilvægt að ríkisstjórnin grípi til aðgerða, láti þetta ekki bara gerast."

Gylfi segir það vilja ASÍ að halda samþykkta kjarasamninga.

„Það er ljóst að Alþýðusamband Íslands og Samtök atvinnulífsins hafa kjarasamning til nóvemberloka 2010. Það er ákveðin samstaða meðal okkar að það séu verðmæti í þeim samningi sem ber að halda í gildi. Þótt að forsendur hans séu brostnar eru í honum ákveðin verðmæti fyrir okkar fólk og fyrir fyrirtækin," segir Gylfi, sem vísar til komandi fjárlaga.

„Það er auðvitað mikilvægt fyrir okkur samtök launafólks og fyrirtækin að sjá í fjárlögin og hvað stjórnvöld hyggjast gera á næsta ári. Þess vegna þótti mikilvægt að fá fram upplýsingar um þær aðgerðir sem grípa á til fyrirtækjunum til hjálpar í þessu formlega samráði stjórnvalda, aðila vinnumarkaðarins og sveitarfélaganna, sem hafa ekki tekið formlega þátt í viðræðunum áður,“ segir Gylfi, sem kveðst vænta þess að fjárlögin verði lögð fram í næstu viku.

Gréta Ingþórsdóttir, aðstoðarmaður Geirs H. Haarde forsætisráðherra.
Gréta Ingþórsdóttir, aðstoðarmaður Geirs H. Haarde forsætisráðherra.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands. mbl.is/Golli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert