Ungt fólk vill RÚV af auglýsingamarkaði

Talsverður munur er á því trausti sem fólk kveðst bera til fjölmiðla eftir því hvaða stjórnmálaflokk það myndi kjósa yrði kosið í dag. Þetta kemur fram í skoðanakönnun MMR, Markaðs- og miðlarannsókna ehf. Einnig segist ríflega helmingur vera fylgjandi því að Ríkisútvarpið hverfi af auglýsingamarkaði. Þar er mikill munur á afstöðu eftir aldri svarenda.

Í hópi þeirra sem kváðust myndu kjósa Sjálfstæðisflokkinn báru 77,2% mikið traust til Morgunblaðsins, en 36% þeirra báru mikið traust til Fréttablaðsins, 45,6% til Viðskiptablaðsins og 1,7% til DV.  Í hópi sjálfstæðismanna báru 44% mikið traust til fréttastofu Stöðvar 2, 80,7% til fréttastofu Sjónvarps RÚV og 79,3% báru mikið traust til mbl.is en 27,9% til visir.is og 10,3% til Eyjan.is.

Meðal þeirra sem kváðust myndu kjósa Samfylkinguna báru 57,1% mikið traust til Morgunblaðsins, 51,2% til Fréttablaðsins, 30,6% til Viðskiptablaðsins og 4,6% til DV. Af þeim báru 52,9% mikið traust til fréttastofu Stöðvar 2, 77,6% til fréttastofu Sjónvarps RÚV en 59,5% til mbl.is, 35,1% til visir.is og 16,1% til Eyjan.is.

Í þeim hópi sem kvaðst myndu kjósa VG báru 54,9% mikið traust til Morgunblaðsins, 48,5% til Fréttablaðsins, 24,8% til Viðskiptablaðsins en 5,9% til DV. Þá báru 49,9% fylgismanna VG mikið traust til fréttastofu Stöðvar 2, 75,7% til fréttastofu Sjónvarps RÚV, 60,5% til mbl.is, 35% til visir.is og 15,8% til Eyjan.is.

Alls sögðust 51,5% svarenda vera hlynnt því að Ríkisútvarpið hverfi af auglýsingamarkaði. Afstaða fólks var mjög ólík eftir aldri. Tæp 70% fólks undir þrítugu voru þessarar skoðunar en 70% þeirra sem voru fimmtugir og eldri voru því andvíg.

Úrtakið var fólk á aldrinum 18-67 ára sem valið var handahófskennt úr þjóðskrá. Könnunin var gerð í gegnum síma og netið. Svarfjöldi var 2.464. Könnunin var framkvæmd 2.-5. desember.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert