Treysta mbl.is best netmiðla

Mbl.is nýtur mests traust netfréttamiðla, eða 63,9% svarenda í könnun MMR (Markaðs og miðlarannsókna ehf.) á trausti almennings til helstu sjónvarps-, prent og netfréttamiðla. Traustið sem mbl.is nýtur er er næstum tvöfalt meira en visir.is nýtur en honum treysta 32,5%. Lítið traust til mbl.is bera 8,4% svarenda en til visir.is 19,9% svarenda. Til vefmiðilsins Eyjan.is báru 13,6% mikið traust en 13,4% lítið traust.

Morgunblaðið nýtur mests trausts dagblaða meðal svarenda og kváðust 62,6% bera mikið traust til blaðsins. Til Fréttablaðsins báru 45,2% mikið traust og 29,8% til Viðskiptablaðsins. Til DV kváðust 4,7% bera mikið traust en tæp 69,4% sögðust bera lítið traust til þess blaðs. Til Morgunblaðsins kváðust 10,1% bera lítið traust, en 17,7% báru lítið traust til Fréttablaðsins og 9,8% til Viðskiptablaðsins.

76,7% kváðust bera mikið traust til fréttastofu Sjónvarps RÚV en 49% báru mikið traust til fréttastofu Stöðvar 2. Hins vegar báru 5,6% lítið traust til fréttastofu Sjónvarpsins en 15,1% til fréttastofu Stöðvar 2.

99,3% þátttakenda í könnuninni tóku afstöðu til spurningarinnar um traust til fjölmiðla. Spurt var: Hve mikið eða lítið traust berð þú til eftirfarandi aðila?

Úrtakið var fólk á aldrinum 18-67 ára sem valið var handahófskennt úr þjóðskrá. Könnunin var gerð í gegnum síma og netið. Svarfjöldi var 2.464. Könnunin var framkvæmd 2.-5. desember.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert