Sjálfvirk skráning í trúfélög andstæð jafnréttislögum

Lögfræðingur Jafnréttisstofu álítur að breyta þurfi því ákvæði laga um skráð trúfélög, sem kveður á um að barn skuli frá fæðingu skráð í sama trúfélag og móðir þess. Lögfræðingur Jafnréttisstofu segir að þetta ákvæði sé tæpast í samræmi við ákvæði jafnréttislaga. Ekki séu neinir hagsmunir, hvorki fyrir nýfætt barn né aðra, að það sé sjálfkrafa skráð í trúfélag.

Einstaklingur leitaði álits Jafnréttisstofu á ákvæðum laga um skráð trúfélög. Í 8. grein laganna segir að barn skul frá fæðingu talið heyra til sama skráða trúfélagi og móðir þess. Börn eru með öðrum orðum skráð í trúfélag móður strax og tilkynnt er um fæðingu barnsins.

Jafnréttisstofa úrskurðar ekki í málum sem þessum en í svari Ingibjargar Elíasdóttur, lögfræðings Jafnréttisstofu segir að þetta ákvæði sé tæpast í samræmi við jafnréttislögin og bann þeirra við mismunun á grundvelli kyns, að kyn þ.e. móðerni, ráði því alfarið í hvaða trúfélag barn er skráð frá fæðingu.

Þá segir lögfræðingur Jafnréttisstofu að löggjafinn hafi ekki fært fyrir því rök, eftir því sem best verði séð, af hverju nauðsynlegt er að barn sé skráð í sama trúfélag og móðir þess við fæðingu.

Lögfræðingur Jafnréttisstofa telur mikilvægast í þessu máli að ekki er að sjá að það séu neinir hagsmunir, hvorki fyrir nýfætt barn né aðra, að það sé sjálfkrafa skráð í trúfélag, hvort sem það fylgir skráningu móður eða föður.

Lögfræðingurinn telur mikla eðlilegra, og í meira samræmi við jafnréttislög og anda þeirra laga, sem og jafnrétti og mannréttindi almennt, að forsjáraðilar tækju um það ákvörðun hvort, og þá hvenær skrá ætti barn í trúfélag. Samþykki beggja forsjáraðila ef þeir eru tveir, yrði þá að liggja fyrir til þess að barn yrði skráð í trúfélag þegar það er yngra en að því sé heimilt að sjá um slíkt á eigin forsendum.

Niðurstaða Ingibjargar Elíasdóttur, lögfræðings Jafnréttisstofu, er því sú að endurskoða þurfi tilgreint ákvæði laganna um skráð trúfélög, og þá annað hvort færa fyrir því gild rök að fyrirkomulag sem nú er lögfest sé eðlilegt og samrýmist jafnréttislögum og mannréttindalöggjöf eða fella ákvæðið brott, og breyta fyrirkomulaginu í þá veru að forsjáraðilar taki sameiginlega ákvörðun um skráningu barns í trúfélag, þegar þeir svo kjósa.

Vantrú fagnar niðurstöðu Jafnréttisstofu en spyr hvað liggi á að skrá börn í trúfélög.

„Það er hvort eð er ekki farið að rukka inn gjald fyrir þau fyrr en þau eru orðin 16 ára. Er þetta ekki eitthvað sem fylgir því að vera lögráða og ætti að fylgja með á skattskýrslunni? Svo er það einnig í meira lagi vafasamt að skrá börn í trúfélag á þennan hátt. Þetta væri líkt og að skrá barn í þann stjórnmálaflokk sem faðirinn er í,“ segir í tilkynningu Vantrúar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert