Forsætisráðherra fer ekki með rétt mál

mbl.is/Friðrik Tryggvason

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir Geir H. Haarde ekki fara með rétt mál þegar hann fullyrði að auknar álögur á tóbak, áfengi og olíu, hækki ekki verðbólgu. Þvert á móti muni hækkunin leiða til hækkunar neysluvísitölu sem aftur hafi áhrif á verðtryggð lán heimilanna.

Í hádegisfréttum RÚV fullyrti Geir H. Haarde, forsætisráðherra að hækkun á áfengis- og tóbaksgjaldi og olíugjaldi hækki ekki verðbólgu.

„Þetta er því miður rangt hjá forsætisráðherra. Hækkun þessara gjalda mun leiða til þess að neysluvísitalan mun hækka um 0,4-0,5%. Þetta kom m.a. fram hjá sérfræðingum Hagstofu Íslands í sama fréttatíma. Afleiðing þessa er, að verðtryggt lán upp á eina milljón króna mun hækka um 5 þúsund krónur og 20 milljón króna verðtryggt húsnæðislán því hækka um 100 þúsund krónur,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ.

Samtals munu verðtryggð lán heimilanna, sem eru 1.400 milljarðar króna, hækka um 6-7 milljarða króna bara vegna þessarar ákvörðunar og þá er ótalið aðrar gjaldskrárhækkanir eins og afnotagjöld RÚV og fleira.

Þolinmæði alþýðunnar þrotin

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness spyr í pistli á heimasíðu félagsins hvað auknar álögur á olíu, tóbak og áfengi eigi að þýða.

„Áttar ríkisstjórn Íslands sig ekki á því að það er ekki hægt að leggja meiri byrðar á skuldsett heimili landsins. Varla eru þessar hækkanir hluti af aðgerðapakka ríkisstjórnarinnar til bjargar heimilum landsins. Svo er bara bíða og sjá hvaða álögur sveitarfélögin munu leggja á almenning, en það liggur fyrir að mörg þeirra eiga í umtalsverðum rekstrarvandræðum vegna þess ástands sem nú ríkir í íslensku efnahagslífi. Það er alveg ljóst að þolinmæði alþýðu þessa lands er að þrotum komin.Það er ótrúlegt að engin hafi verið látinn sæta ábyrgð á þessu grafalvarlega ástandi sem ríkir í íslensku samfélagi og það á sama tíma og fólk verður fyrir skerðingu á sínum launum, atvinnumissi og verðlag á vöru og þjónustu stórhækkar og allur þessi vandi sem blasir við íslenskri þjóð er vegna græðgivæðingar nokkurra fjárglæframanna,“ skrifar formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.
Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness. mbl.is/SteinarH
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert