Enn ósamið um Icesave

Geir H. Haarde segir að ekki liggi fyrir nein ákvörðun fyrir um greiðslur úr ríkissjóði vegna Icesave reikninganna. Enn sé verið að reyna að lágmarka tjónið af því leiðindamáli.  

Ekki liggur enn ljóst fyrir hver kostnaður ríkissjóðs verður en þó hefur komið fram að eftir að eignir Landsbankans verða seldar standa eftir eitthundruð og fimmtíu til tvöhundruð milljarðar. Stjórnvöld hafa ekki skrifað undir neina skuldaviðurkenningu. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir utanríkisráðherra segir að viðræður við Breta og Hollendinga vegna málsins haldi áfram í janúar.

Samþykktar hafa verið á síðustu dögum þingsins fyrir jól skattahækkanir og gjaldskrárhækkanir en ávinningur ríkisins af því nemur þó aðeins broti af því sem þarf að greiða vegna þessara reikninga.

Geir H. Haarde forsætisráðherra segir engin bein tengsl þarna á milli. Ríkissjóður verði fyrir miklu tekjutapi vegna kreppunnar, til að mynda vegna atvinnuleysisbóta. Það hafi tekist að minnka hallann á ríkissjóði við fjárlagagerðina um sextíu milljarða frá því sem hann hefði getað orðið. Icesave reikningarnir séu ekki stóra málið í þessu enn sem komið er en unnið sé að samningum við þær þjóðir sem eigi hlut að máli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert