Salmonellusýkingin úr tjörnum

Teigur í Mosfellsbæ. Búið er að girða af aðkeyrslu að …
Teigur í Mosfellsbæ. Búið er að girða af aðkeyrslu að húsinu þar sem hin veiku hross dveljast. Guðmundur Rúnar Guðmundsson

21 hross úr 40 hesta stóði á Kjalarnesi er nú dautt af völdum skæðrar salmonellusýkingar. Fjórir til sex hestar eru enn alvarlega veikir að sögn Gunnars Arnar Guðmundssonar, héraðsdýralæknis Gullbringu- og Kjósarumdæmis.

Gunnar segir a.m.k. fjóra þeirra hesta, sem drápust síðasta sólarhringinn, hafa verið aflífaða af dýraverndarástæðum. Talið er að smitið komi úr tjörnum sem stóðið hefur komist í til að drekka. „Okkur grunar það sterklega en við vitum ekki hvernig vatnið smitaðist þar," segir Gunnar en sýni sem tekin voru úr vatninu reyndust jákvæð þegar kannað voru hvort þau innihéldu salmonellu. „Það skýrir líka af hverju svona margir veikjast svona heiftarlega, því smitleiðin er miklu auðveldari þegar sýkingin kemur úr vatni. Það hefur líka áhrif að hestarnir hafa fengið mikið smitmagn í sig."

Gunnar segir að búast megi við því að það versta verði yfirstaðið að einum til tveimur sólarhringum liðnum. Þau hross sem lifi þá enn ættu að sleppa, alla vega undir venjulegum kringumstæðum.

Sex dýralæknar gengu á milli hrossanna í morgun og gáfu þeim lyf og vökvameðhöndlun og verður sú meðferð endurtekin í kvöld að sögn Gunnars. Hann segir veikina mikið áfall fyrir eigendur hrossanna, bæði fjárhagslegt og tilfinningalegt.

Sýkingarinnar varð vart sl. sunnudag er dauður hestur fannst í hjörð sem var á útigangi við Kjalarnes. Strax var athugað með restina af hjörðinni og kom þá í ljós að hestarnir, sem voru fjörutíu, voru flestir veikir. Hrossin voru þá flutt í hús í Mosfellsbæ þar sem hlúð hefur verið að þeim.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert