Hefjum hrefnuveiðar í apríl

„Það er mikið gleðiefni að þetta skuli loks fara af stað á ný. Við ættum að geta hafið veiðar í byrjun apríl,“ segir Gunnar Bergmann Jónsson, framkvæmdastjóri Hrefnuveiðimanna ehf., um heimild ráðherra til hvalveiða í atvinnuskyni. Gunnar segir að nýr bátur þeirra fari nú í slipp og vinna við húsnæði á Akranesi, þar sem hvalurinn verður skorinn, verði sett í gang.

„Þetta mál hefur eftir því sem ég best veit, verið í undirbúningi í tvo mánuði eða frá miðjum nóvember svo þetta var tímabært. Við áttum fund síðast með sjávarútvegsráðherra 3. desember sl. og þá var málið komið vel á veg,“ segir Gunnar Bergmann.

Íslendingar hófu vísindaveiðar 2003 en þeim lauk árið 2007. Atvinnuveiðar voru stundaðar árin 2006, 2007 og 2008. Gunnar segir að markaðir í Japan hafi nú opnast á ný en ráðherra hafi lagt áherslu á að markaðsmál væru í lagi áður en veiðar yrðu heimilaðar.

„Þetta er eitthvað sem við höfum stefnt að í lengri tíma. Við ætluðum að þetta gengi hraðar fyrir sig en það gekk ekki eftir. Við höfum verið í sambandi við aðila úti í Japan og þeir bíða eftir okkar kjöti. Þeir geta tekið við meiru en við fáum að veiða miðað við ráðgjöf Hafró. Það er alltaf markaður fyrir okkar afurðir þarna úti. Í Japan er stærsti markaðurinn, sterkasta hefðin og verðið viðunandi,“ segir Gunnar Bergmann.

Hann segir að það taki um það bil einn og hálfan mánuð að gera klárt fyrir veiðarnar.

„Nú förum við með bát í slipp en við höfum fengið nýjan hrefnubát til veiðanna, mun stærri en þann fyrri eða rúmlega 200 tonna bát. Það þarf að breyta honum, setja í hann byssur og fleira. Þá er ég tilbúinn með pöntun vegna sprengna og skutla sem við pöntum frá Noregi. Síðast en ekki síst erum við búnir að festa okkur vinnsluhúsnæði á Akranesi. Við hittum fulltrúa bæjarstjórnar Akraness á dögunum og nú liggur fyrir að gera húsnæðið klárt. Veiðar ættu því að geta hafist fyrstu eða aðra vikuna í apríl, þá ætti allt að vera komið hjá okkur.“

Gunnar segir að 24 til 28 störf geti skapast í kringum hrefnuveiðar og vinnslu en þegar allt sé talið gætu skapast rúmlega 200 störf kringum veiðar á hrefnu og langreyði.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert