„Jóhanna vinnusöm en þröngsýn"

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra.
Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra. mbl.is/ Árni Sæberg

Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra mun að öllum líkindum setjast í stól forsætisráðherra í nýrri ríkisstjórn og verða þar með fyrsta konan til þess í sögu íslenskra stjórnmála. Aðeins þrjár konur aðrar á Norðurlöndunum hafa orðið forsætisráðherrar. 

„Jóhanna  er ærleg manneskja,“ var það fyrsta sem Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi formaður Alþýðuflokksins, sagði um Jóhönnu Sigurðardóttur. „Hún er einlæg í stjórnmálaskoðunum sínum og ríkasti þátturinn í þeim skoðunum er trúverðug samúð með lítilmagnanum og vilji til að bæta kjör þeirra sem eiga undir högg að sækja almennt í þjóðfélaginu. Þetta er allt saman ekta og ósvikið,“ sagði Jón Baldvin.

„Hún er vinnusöm og einbeitir sér að sínum málum, sem hún hefur nánast einskorðað sig við. Reynsluheimur hennar er þess vegna þröngur og hún hefur tilhneigingu til að einskorða sig við sína málaflokka án þess að taka tillit til heildarmyndarinnar. Það er kannski helsti gallinn. Jóhanna er einfari. Í því felst einbeitingarhæfni, en er jafnframt þröngsýn og, merkilegt nokk með manneskju sem vinnur jafn mikið fyrir fólk, þá lítur þetta út eins og hún hafi takmarkaðan áhuga á samskiptum við fólk. Það er athyglisvert að í samræmi við þetta hefur hún samkvæmt flestum skoðanakönnunum verið sú sem helst naut trausts í fráfarandi ríkisstjórn.

Hún hafði verk að vinna og vann að þeim kerfisbundið, hvað svo sem leið öðru. Auðvitað var undan henni kvartað í stjórnarsamstarfinu vegna þess að hún hafði lítt tekið til greina kröfur um niðurskurð í ríkisútgjöldum. Þannig að Jóhanna verður væntanlega þá forsætisráðherra í ríkisstjórn sem þarf núna fyrst og fremst að stokka upp í ríkisfjármálum vegna þess að þjóðin er sokkin í skuldir og þarf að greiða upp undir helminginn af tekjum ríkissjóðs í vexti af skuldum til erlendra lánardrottna.

Það mun heldur betur reyna á forgangsröðun í velferðarríkinu. Þetta er eitt risavaxnasta verkefni sem stjórnmálamaður hefur tekist á herðar. Ég segi fyrir mína parta að ég óska henni velfarnaðar og veit að ekki mun af veita að hún fái alla þá hjálp sem mögulegt er,“ sagði Jón Baldvin.

Hann sagði jafnframt að samskipti við erlendar lánastofnanir og nágrannaríki vegna skulda þjóðarinnar yrðu fyrst og fremst á höndum forsætisráðherra. Þar gæti reynsluleysi háð Jóhönnu.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert