Alveg nýr veruleiki

Niðursveifla í byggingariðnaði á þátt í atvinnuleysinu.
Niðursveifla í byggingariðnaði á þátt í atvinnuleysinu. mbl.is/Júlíus

Vinnumálastofnun áætlar að allt að 18.000 manns verði án vinnu í lok maímánuðar, ef fram heldur sem horfir, og að milli 15.000 og 16.000 verði á atvinnuleysisskrá í lok febrúarmánaðar, þegar áhrifa hópuppsagna í haust gæti að fullu.

Aðspurður um spár Vinnumálastofnunar um atvinnuleysi á næstu mánuðum segir Gissur Pétursson, forstjóri stofnunarinnar, að ráðgert sé að hlutfall atvinnulausra fari í 10 prósent í maímánuði, sem jafngildi því að alls um 18.000 manns verði án vinnu á landinu öllu.

Til að setja þessar tölur í samhengi telur Gissur að erlendir starfsmenn hafi verið flestir hátt í 20.000 og að um þriðjungur, eða 6.000 manns úr þeim hópi, hafi nú snúið aftur til síns heima.

Karl Sigurðsson, forstöðumaður vinnumálasviðs hjá Vinnumálastofnun, tekur undir með Gissuri að atvinnuleysistölurnar nú séu án fordæmis á síðari tímum.

„Þetta er alveg nýr veruleiki. Ég þekki ekki söguna nógu vel en á síðustu áratugum er þetta alveg nýtt. Við höfum aldrei séð atvinnuleysi hærra en á milli sjö og átta prósent í einum mánuði, í janúarmánuði 1995, held ég að það hafi verið.“

Aðspurður um hversu margir hafi gengist undir tekjuskerðingu á síðustu mánuðum segir Karl að Vinnumálastofnun hafi ekki tölur um það.

Fjöldi þeirra sem fái bætur á móti skertu starfshlutfalli hafi hins vegar verið kominn í á milli 600 og 700 í lok desember.

„Það hefur fjölgað jafnt og þétt síðan,“ sagði Karl aðspurður um þróunina í þessum hópi. „Það er ekki hægt að fá neinar nákvæmar tölur um það fyrr en eftir mánaðamótin, þegar janúarmánuður verður gerður upp endanlega.“ 

Inntur eftir því hversu margir Vinnumálastofnun áætli að muni bætast á atvinnuleysisskrá í febrúar segir Karl erfitt um það segja.

Samkvæmt hópuppsögnum sem hafi borist megi ætla að yfir 1.000 manns muni bætast á skrána vegna hópuppsagna í haust, nú þegar þriggja mánaða uppsagnafrestur sé á enda.  

Að samanlögðu megi því ráðgera að á milli 2.500 og 3.000 muni bætast á atvinnuleysisskrána í febrúar.

Á vef Vinnumálastofnunar kemur fram að fjöldi atvinnulausra sé nú 12.879.

Útfrá því má ætla að heildarfjöldi atvinnulausra í lok febrúar verði því allt að hátt í 16.000.

Karl bendir hins vegar á að reikna megi með því að 500 manns fari af skránni eftir janúar og á þá m.a. við einstaklinga sem hafa farið í nám eða fengið aftur vinnu. Þá hafi hluti skráðra ekki bótarétt, auk þess sem nokkur hópur fái bætur á móti hlutastarfi. Einnig séu á skránni sjálfstætt starfandi einstaklingar sem hafi ennþá einhverjar tekjur af sinni starfsemi.

Gissur Pétursson
Gissur Pétursson
Karl Sigurðsson
Karl Sigurðsson
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert