Framsókn ver nýja stjórn

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins. mbl.is/Ómar

„Niðurstaðan er sú að þingflokkurinn fellst á að verja ríkisstjórn Samfylkingar og VG vantrausti. Það gerum við í trausti þess að þau skilyrði sem við höfum sett, verði uppfyllt,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins þegar þingflokksfundi framsóknar lauk. 

Þingflokkur Framsóknarflokksins settist á fund að nýju í Alþingishúsinu á sjötta tímanum eftir rúmlega tveggja klukkustunda hlé. Í millitíðinni gekk Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins, ásamt Steingrími J. Sigfússyni á fund Jóhönnu Sigurðardóttur í Félags-og Tryggingamálaráðuneytinu.

Eftir stuttan fund þingflokks framsóknar var komin niðurstaða í málið. Sigmundur segir engin ný skilyrði hafa verið sett fram af þeirra háflu.

„En eins og komið hefur fram þá viljum við sjá að menn hafi til þess raunhæfar leiðir til þess að ná þeim skilyrðum fram sem við höfum sett. Það hefur ekki náðst að klára að vinna úr því, en þar sem að tíminn er naumur og það liggur á að koma hér á ríkisstjórn, þá er samningur um það að ríkisstjórnarflokkarnir myndu þiggja okkar ráð, það er að segja að ráðgjafar okkar og við myndum vinna með þeim í þessu áfram,“ sagði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson.

Þá er samkomulag um að kosið verði til Alþingis laugardaginn 25. apríl næstkomandi. Nú liggur fyrir að tímasetja fundi þingflokka stjórnarflokkanna, fund flokksstjórnar Samfylkingar og ríkisráðsfundi á Bessastöðum vegna fráfarandi ríkisstjórnar og þeirrar sem við tekur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert